Forsendur þjóðhagsáætlunar og fjárlagafrumvarps

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 13:37:00 (1016)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Í anda þeirra ábendinga sem fram komu hjá hæstv. forseta ætla ég ekki að nota allan minn tíma heldur skapa möguleika til þess að þeim mun fleiri komist að. En ég vil segja þetta. Í fyrsta lagi að sjálfsögðu þakka ég fyrir svarið. Í öðru lagi legg ég á það áherslu að ég tel óhjákvæmilegt að þessar efnahagsráðstafanir, ef einhverjar verða, verði lagðar fyrir Alþingi til umræðu í skýrsluformi þannig að Alþingi geti strax í næstu viku rætt um málið í heild, ekki einasta það sem lýtur að ríkisbúskapnum heldur einnig að atvinnulífinu í heild, svo og kjörum launafólks, vaxtastigi og öðrum þáttum sem óhjákvæmilegt er að ræða.
    Ég tók eftir því í svari hæstv. forsrh. að hann tók þannig til orða að það kæmi sér vel að verkalýðshreyfingin skyldi vilja ræða við ríkisstjórnina. Það var býsna athyglisverð uppsetning mála. Það er einnig athyglisvert að hugsa til þess að ríkisstjórnin skuli ekki þrátt fyrir þá erfiðleika sem hún telur að séu í efnahagslífinu hafa sjálf haft frumkvæði að

því að kalla aðila vinnumarkaðarins til formlegra viðræðna. Ég tel að þetta sýni mjög vel hvernig þessi ríkisstjórn hefur unnið og ég tel að það sanni mjög vel og skýri af hverju þessari stjórn eru mislagðar hendur, af því að hún hefur ekki vit á því að kalla þá aðila til samráðs, samvinnu og viðræðna sem úrslitum ráða þegar allt kemur til alls í stjórn efnahags- og atvinnumála í landinu, þ.e. aðila vinnumarkaðarins.