Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Ég beini fsp. minni til forsrh. Ég vildi fyrst spyrja forsrh. hvernig verði af hans hálfu staðið að endurskoðun á norrænu samstarfi? Nýlega samþykktu forsætisráðherrar Norðurlandanna að skipa einn mann hver til að undirbúa þá endurskoðun. Ég vildi spyrja hæstv. forsrh.: Hvernig verður að því staðið af hans hálfu og hvaða hæfileikum þarf sá einstaklingur sem í það fer að vera búinn? Ég vildi jafnframt spyrja hann hvernig hann hyggist standa að því að styrkja samstarfið sem hefur verið að eflast, hið svokallaða vestnorræna samstarf.
    Hann sagði áðan að eftir þá einstaklinga sem hefðu verið trúnaðarmenn ríkisstjórna þar á undanförnum árum lægi lítið. Ég vildi spyrja hæstv. forsrh. hvað hann hafi fyrir sér í þeim efnum. Ég vildi jafnframt spyrja hann hvernig hann hyggist endurskipa í þá nefnd og hvað þurfi að liggja eftir þá menn til að þeir teljist hæfir til að sinna þeim verkum. Hér er um aðila að ræða sem tilnefndir voru annars vegar af Byggðastofnun og hins vegar af Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi.
    Hyggst forsrh. biðja um tilnefningar í því sambandi eða fer hann eingöngu eftir skoðunum manna á þjóðmálum í þessu sambandi? Og ég spyr: Mega aðrir embættismenn og trúnaðarmenn núv. ríkisstjórnar eiga von á því að verða sérstaklega kallaðir fyrir af ráðherrum í ríkisstjórninni og látnir vitna um skoðanir á hinum ýmsu málum til að þeir teljist hæfir til að sinna störfum sem þeir hafa sinnt á undanförnum árum?
    Það er náttúrlega með eindæmum að forsrh. Íslands skuli leyfa sér það að koma hér upp og fullyrða um tiltekna einstaklinga í þjóðfélaginu: Það liggur lítið eftir þá. Ég held að forsrh. verði að segja hvað hann á við en fara ekki með slíkt fleipur.