Ákvæði þingskapa um óundirbúnar fyrirspurnir

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 14:16:00 (1043)

     Geir H. Haarde :
     Virðulegur forseti. Ég held að rétt sé að það komi fram að í haust lagði forseti fyrir formenn þingflokka ákveðnar hugmyndir um hvernig ætti að standa að þessum óundirbúnu fyrirspurnum og leitaðist við að ná samkomulagi um þær. Það samkomulag tókst hins vegar ekki vegna þess að formaður þingflokks Framsfl. taldi ekki eðlilegt að gera slíkt samkomulag eins og á stóð og ég hygg að hann kannist fyllilega við það sjálfur. Það sem síðan gerðist var að forseti vildi reyna að koma betri reglu á þessar umræður, ef svo mætti segja, vegna þess að einungis er um hálftíma að ræða og það sem fyrir forseta vakti var að sjálfsögðu að gefa sem flestum kost á að hagnýta sér þann möguleika að bera fram óundirbúnar fyrirspurnir. Ef þingsköpum, eins og þau eru, er framfylgt til hins ýtrasta, komast hugsanlega ekki nema tveir að og fyrir forseta vakti að greiða fyrir því að sem flestir kæmust að.
    Ég verð að viðurkenna að ég man ekki sérstaklega hvort þetta litla atriði var rætt, hvort aðrir en fyrirspyrjandi mættu taka til máls um viðkomandi fyrirspurn. Ég minnist þess satt að segja ekki en það sem fyrir liggur er að forseti las þegar þetta byrjaði í fyrsta sinn sínar viðmiðanir í þessu og lagði fyrir þingheim hvernig hún hygðist standa að þessum fyrirspurnum. Því var alls ekki mótmælt þannig að forseti hefur að sjálfsögðu verið í góðri trú með að standa að málum eins og hér hefur verið gert.
    Hitt er hins vegar alveg rétt, sem fram kom hjá hv. 4. þm. Austurl., að ef einstakir þingmenn vilja í krafti þingskapanna neyta síns ýtrasta réttar er auðvitað ekki hægt að taka þann rétt frá mönnum. Þess vegna tel ég að skynsamlegt sé, sem fram er komið, að menn setjist niður og reyni að ná saman um hvort hér getur verið samkomulag allra þingflokka um þessa framkvæmd því að ef ekki gætum við setið uppi með að einungis væru tvær fyrirspurnir teknar fyrir í hvert sinn. Kannski er það það sem menn vilja. Ég skal ekkert segja til um það en ég held að rétt sé að menn ræði þetta á nýjan leik á grundvelli þeirra upplýsinga sem hafa komið fram.