Ákvæði þingskapa um óundirbúnar fyrirspurnir

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 14:23:00 (1046)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Forseti tekur undir síðustu orð hv. 1. þm. Norðurl. v. Okkur ber að fara að þingsköpum. Í þessu tilviki má segja að álitamál sé hvort leyfa megi athugasemdir í slíkum stuttum fyrirspurnatíma. Þarna var um það að ræða fyrir forseta --- því að samkvæmt þingsköpum ber honum að úrskurða ef eitthvert álitamál kemur upp varðandi framkvæmd þingskapa --- að túlka þessa grein; hve langt hún ætti að ganga, hvort leyfa ætti athugasemdir annarra en fyrirspyrjanda og ráðherra eins og þegar um venjulegan fyrirspurnatíma er að ræða. Þarna taldi forseti að væri í hag allra hv. þm. að þetta ákvæði 5. mgr. 49. gr., sem vísað er til, gilti aðeins um lengd ræðutímans en ekki um tilhögun umræðunnar. Þess vegna ákvað forseti að túlka þessa grein á þennan hátt varðandi óundirbúnar fyrirspurnir.
    Forseti vill gjarnan geta þess sem ánægjulegt er og fram hefur farið á þessum fundi, að í þessum hálftíma fyrirspurnatíma voru haldnar 24 ræður en ef við ættum jafnframt að leyfa athugasemdir er hætt við því að færri fyrirspurnir kæmust að. Þetta tók forseti fram, eins og kom fram fyrr í mínu máli, strax þegar þessar fyrirspurnir hófust. Því miður var hv. 4. þm. Austurl. ekki á þeim fundi. Hann hefði þá væntanlega gert athugasemdir við þetta strax, en það komu engar athugasemdir fram við þessa tilhögun. Forseti las ekki upp allan inngangstextann núna eins og hann hugsaði sér tilhögunina vegna þess að það kom svo greinilega í ljós í upphafi fundarins að menn voru meðvitaðir um hvernig við ætluðum að hafa tilhögunina og menn risu úr sætum áður en til þess kom að forseti væri tilbúinn að gefa mönnum orðið. Þess vegna þykir forseta það miður að menn eru ekki samþykkir þessu fyrirkomulagi og er sjálfsagt og eðlilegt að taka þetta upp á fundi með formönnum þingflokka og í forsætisnefndinni. En af því að um það var spurt fyrr á þessum

fundi vill forseti geta þess að fundir í forsætisnefndinni eru að jafnaði einu sinni í viku, oftar ef þurfa þykir og sjaldnar ef ástæða er til.