Ákvæði þingskapa um óundirbúnar fyrirspurnir

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 14:33:00 (1051)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Ég vil koma því á framfæri, vegna þess að ég hef sennilega ekki sagt það hér áður, að ég er þeirrar skoðunar að hér sé ekki um túlkunaratriði að ræða á þingsköpunum. Ég tek undir það sem fram hefur komið hjá hv. 2. þm. Austurl. um það efni. Þetta getur ekki verið túlkunaratriði á þingsköpum. Í ljósi þess var málið rætt í forsætisnefnd þingsins í sumar að það væri ekki túlkunaratriði. Hins vegar voru menn sammála um að það mætti reyna samkomulag um málið. Ég undrast það að hæstv. forseti þingsins skuli ekki hafa fyrir því að koma því á framfæri sem gert hefur verið í málinu --- það þurfi aðrir þingmenn að ganga í það að upplýsa hvað gert hefur verið --- og að ekki skuli koma héðan úr forsetastóli yfirlýsing um að ekki verði reynt að ganga fram hjá þingsköpunum og sniðganga þau eins og greinilega var reynt á fundi 22. okt. með því að kveða hér upp úrskurð sem síðan átti að gilda. Og þegar ég bað hér um orðið í umræðunni í dag, þá rek ég mig á að það er búið að taka þann rétt sem ég hef samkvæmt þingsköpum til þess að fá orðið undir viðkomandi dagskrárlið.