Ákvæði þingskapa um óundirbúnar fyrirspurnir

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 14:35:00 (1052)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Það eru ummæli hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar sem einnig á aðild að forsætisnefnd sem reka mig í ræðustól nú. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umræðum um þingsköp og vonaðist til að umræðan yrði að þessu loknu tekin upp, sem ég heyri nú að verður, í samráði forsætisnefndar og þingflokksformanna, sem auðvitað geta ekki tekið þann rétt af fólki sem þingsköp heimila, heldur einungis leitað samkomulags. Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson sagði að ný þingsköp hefðu kallað á breytingar og það væri eðlilegt að þau þyrfti að ræða. Ég held að mestu breytingarnar séu ekki ný þingsköp heldur ný vinnubrögð þeirra sem fara með meiri hluta hér á Alþingi og þess vegna séu þessar erfiðu umræður æ ofan í æ í gangi og verði að eiga sér stað. Ég held nefnilega að í góðu samkomulagi og góðu samráði sé tiltölulega auðvelt að ná samkomulagi um mál sem flestir eru sammála um. Ég hygg að það sé í flestra þágu að stytta umræður um hverja og eina óundirbúna fyrirspurn og um það ætti að geta náðst samstaða. En það verður að gera með samráði og ekki með því að taka af mönnum nokkurn rétt. Hér er ekki um túlkunaratriði að ræða heldur ótvíræð ákvæði þingskapalaga og það er aðeins

hægt að leita samkomulags við fólk, ekki að segja til um hvernig þingsköpum eigi að haga.