Framkvæmd atkvæðagreiðslna

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 14:38:00 (1054)

     Guðrún Helgadóttir :
     Hæstv. forseti. Áður en gengið verður til atkvæðagreiðslu um fjáraukalög ársins 1991 hlýt ég að vekja athygli hv. þm. á því að nú fer í fyrsta skipti fram atkvæðagreiðsla sem ekki sést. Það sést ekki hvernig menn greiða atkvæði. Nú mundi ég ekki hafa gert það að máli nema af sérstakri ástæðu og hún er þessi: Það er alveg ljóst að hér í þinginu er ekkert samkomulag meðal stjórnarliðsins um tekjuöflun og dæmi um það liggja hér fyrir á þskj. varðandi 44. mál sem eru nál. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Einn hv. þm. stjórnarliðsins kemur með tillögu um að hann lækki úr 1,5% í 0,5%. Allir aðrir stjórnarliðar skrifa undir nál. með fyrirvara nema einn. Hér er um að ræða, að mig minnir, upphæð um hálfan milljarð á síðustu fjárlögum og ég hlýt að spyrja hæstv. forsrh.: Má vænta álíka samkomulags um aðra tekjuöflunarliði?
    Önnur ástæða, frú forseti, til þess að ég hef máls á þessu er sú að á undanförnum vikum hefur fjárln. setið í allgóðri samvinnu við að reyna að ganga frá fjáraukalögum og stjórnarandstaðan lagði á sig allnokkra vinnu til að ná samkomulagi um sameiginlegt nál. Það tókst með góðum vilja til samvinnu. Hvað gerist svo næst? Í fréttum í gærkvöldi birtist einn af hv. þm. stjórnarliðsins, hv. 3. þm. Suðurl., Árni Johnsen, með meiri háttar viðtöl um eitt stykki milljarð í Þjóðleikhúsið. Að sjálfsögðu er hæstv. menntmrh. spurður --- hvað segir hann um það? Og vesalings hæstv. menntmrh. kvaðst ekki vera bjartsýnn á það og lái honum hver sem vill.
    Ég hlýt því að spyrja, hæstv. forseti: Er hægt að ætlast til þess eftir þessa atburði að við stjórnarandstöðuþingmenn sitjum hér og greiðum atkvæði í gegnum tölvu sem segir okkur ekki hvort stjórnarliðið hangir saman um það sem við erum að greiða atkvæði um? Ég vil því leyfa mér að viðra þá hugmynd við hæstv. forseta --- og mundi sætta mig við það að smáhlé yrði gert til að athuga það --- hvort við greiðum nú ekki bara atkvæði um fjáraukalög 1991 með handauppréttingu eins og við höfum gert svo lengi sem elstu menn muna og menn hafa ekki talið eftir sér að telja. Því að ég tel alveg óþolandi að sitja hér og greiða fyrir máli sem þessu án þess að hafa hugmynd um hvað stjórnarliðið hefur um málið að segja.