Fjáraukalög 1991

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 15:20:00 (1062)

     Guðmundur Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Hér er um að ræða brtt. sem er hækkun upp á 700 millj. kr., viðbót við þær 105 millj. sem gerð er grein fyrir í fjáraukalagafrv. sjálfu og eru skuldbindingar vegna húsakaupa sem fram hafa farið á þessu ári eða átt sér stað. Stjórnarandstaðan er ekki efnislega ósammála því að skuldbindingar séu færðar inn í fjárlög eða fjáraukalög, en hefur lýst fyrirvara sínum við þá aðferð sem hér er viðhöfð hvað þetta varðar. Hér er tekinn einn þáttur skuldbindinga út úr og færður sérstaklega í fjáraukalögum. Þetta er mál sem þarfnast miklu betri undirbúnings og þarf að skoða með miklu nákvæmari hætti heldur en hér er gert. Auk þess er gert ráð fyrir því bæði við fjárlagagerðina fyrir næsta ár og þó einkum vegna fyrirhugaðrar fjárlagagerðar fyrir árið 1993 að taka þessi mál upp og þá með skipulögðum hætti. Því höfum við haft fyrirvara við þessa brtt. sem hér liggur fyrir og fulltrúar stjórnarandstöðunnar munu því sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.