Fjáraukalög 1991

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 15:24:00 (1064)

     Guðmundur Bjarnason (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegur forseti. Áður en þessi atkvæðagreiðsla fer fram langar mig að benda á að það er ekki samræmi í tillögunum í fjáraukalagafrv. sjálfu þar sem greint er frá því að varðandi stofnkostnað séu nýframkvæmdir auknar um 170 millj. kr. en jarðgöng á Vestfjörðum skorin niður um 250 millj. kr., annars vegar það sem hér greinir frá, og svo hins vegar í fylgiskjali sem fylgir nál. fjárln. þar sem gerð er grein fyrir þessum niðurskurði sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir á framkvæmdum Vegagerðarinnar á þessu ári. Þar segir að vetrarviðhald sé skorið niður um 100 millj. kr., Vestfjarðagöng séu skorin niður um 100 millj. kr. og nýbygging vega og brúa um 150 millj. kr. Hér er ósamræmi sem hlýtur að þurfa að skoða á milli 2. og 3. umr. hvað þetta varðar, hvað er hérna rétt. Ég reyndar hygg að niðurskurðarlisti sá sem fylgir með nál. sem fylgiskjal sé réttur, og byggi það á samtölum mínum við starfsmenn Vegagerðar ríkisins, en það sem fram kemur í fjáraukalagafrv. sjálfu sé rangt. Þetta vildi ég láta koma fram, virðulegur forseti, áður en atkvæðagreiðslan á sér stað.