Seðlabanki Íslands

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 15:37:00 (1071)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um Seðlabanka Íslands. Frv. er á þskj. 31.
    Þetta frv. er flutt í tvennum tilgangi. Annars vegar til þess að laga seðlabankalögin að ákvæði í lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila, þar sem erlendum hlutafélagsbönkum, sem skráðir eru erlendis og eiga þar varnarþing, er heimilað að starfrækja rekstur útibúa hér á landi að fengnu leyfi viðskrh. frá 1. jan. 1992 að telja. Hins vegar er það flutt til þess að unnt sé að breyta núverandi fyrirkomulagi á gengisskráningu krónunnar þannig að gengi hennar ráðist í auknum mæli af framboði og eftirspurn á gjaldeyrismarkaði.
    Ég leyfi mér að vekja athygli þingheims á því að í síðustu viku mælti ég fyrir frv. til laga um breytingu á viðskiptabankalögunum á þskj. 22, þar sem einnig er fjallað um útibú erlendra hlutafélagsbanka.
    Að lokinni þessari umræðu hyggst ég svo mæla fyrir frv. til laga um breyting á lögum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála þar sem gerðar eru tillögur um breytingar á ákvæðum laganna um sölu og skilaskyldu á erlendum gjaldeyri. Þetta er hvort tveggja liður í því að skapa forsendur fyrir því að hér á landi geti þróast frjáls markaður fyrir erlendan gjaldeyri.
    Ég sný mér þá fyrst að þeim ákvæðum frv. um breytingar á seðlabankalögum er lúta að útibúum erlendra hlutafélagsbanka. Í 1. gr. frv. er kveðið á um að útibú erlendra hlutafélagsbanka skuli bætast við þær stofnanir og félög sem upp eru talin í 6. gr. seðlabankalaganna og teljast til innlánsstofnana. Til að taka af öll tvímæli um það að seðlabankalögin í heild sinni taki til útibúa erlendra hlutafélagsbanka þykir mér rétt að taka það skýrt fram í þessari grein þar sem innlánsstofnanirnar eru skilgreindar. Þetta er í samræmi við það meginsjónarmið að aðstaða hinna erlendu útibúa skuli í hvívetna vera hin sama og innlendra hlutafélagsbanka. Þetta þýðir að ákvæði seðlabankalaganna um stjórntæki peningamála og fyrirgreiðslu við innlánsstofnanir taki einnig til erlendra hlutafélagsbanka. Þetta þýðir einnig að ákvæði seðlabankalaganna um bankaeftirlit eigi við um útibú erlendra banka eftir því sem við getur átt. Sama á við um önnur ákvæði seðlabankalaganna þar sem fjallað er um innlánsstofnanir.
    Ég tel ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þennan þátt frv. enda var rætt ítarlega um útibú erlendra banka og starfsemi þeirra hér á landi þegar frv. um breytingu á viðskiptabankalögunum var til umræðu hér í síðustu viku.
    Ég sný mér þá síðara efnisatriðinu í frv.
    Hinn 3. okt. sl. var stefna ríkisstjórnarinnar í gengismálum kynnt opinberlega á

fréttamannafundi. Meginatriði þessarar stefnu er áframhaldandi stöðugleiki. Stefna stöðugs gengis mótar þann efnahagslega ramma sem aðilar vinnumarkaðarins og aðrir aðilar í þjóðfélaginu verða að miða sínar tekju- og verðlagsákvarðanir við. Hún er einnig forsenda þess að unnt sé að gera skynsamlega kjarasamninga til að stuðla að áframhaldandi stöðugleika í verðlagi hér á landi.
    Að beiðni minni könnuðu Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun á liðnu sumri gaumgæfilega hvernig unnt væri að tengja krónuna við evrópska myntkerfið. Ýmis rök mæla með því fyrir fram að gengi krónunnar verði tengt evrópsku mynteinunginni ECU.
    Í fyrsta lagi er með slíkri tengingu gefin sterkari yfirlýsing um stöðugt gengi en hingað til hefur verið gefin og í henni felst aðhald að öllum ákvörðunum í efnahagsmálum.
    Í öðru lagi dregur tenging við ECU úr gengisáhættu í viðskiptum á ECU-svæðinu sem er nú mikilvægasta viðskiptasvæði þjóðarinnar. Á það má benda að um 66% af okkar vöruinnflutningi á árinu 1990 og 76% af vöruútflutningi tengdust ECU-svæðinu.
    Í þriðja lagi felst í ECU-tengingu yfirlýsing um vilja Íslendinga til nánara samstarfs við Evrópuþjóðir á sviði viðskipta og efnahagsmála.
    Í fjórða lagi mun tenging krónunnar við ECU gera hana gjaldgengari í erlendum viðskiptum en nú er.
    Samhliða því sem ríkisstjórnin staðfesti áframhaldandi stefnu stöðugleika í gengi ákvað hún að tenging krónunnar við ECU væri ekki tímabær að sinni. Til þess skorti ýmsar nauðsynlegar forsendur. Til þess að undirbúa jarðveginn var ákveðið að hrinda skyldi í framkvæmd ýmsum breytingum í gengis-, gjaldeyris- og peningamálum til þess að unnt verði með trúverðugum hætti að tengja gengi krónunnar við ECU á árinu 1993. Það er fyrst og fremst um það að ræða að grípa til aðgerða til þess að auka markaðsáhrif á daglegt gengi krónunnar og efla möguleika Seðlabankans til þess að hafa áhrif á gengið með almennum aðgerðum á fjármagns- og gjaldeyrismarkaði.
    Samhliða þessum breytingum þarf að ná betri tökum á ríkisfjármálum og hefja undirbúning að því að unnt verði að mæta sveiflum í ytri aðstæðum þjóðarbúsins með sveiflujöfnunarsjóðum og aðgerðum í ríkisfjármálum. Að öðrum kosti fær stefna stöðugs gengis vart staðist til frambúðar.
    Svo ég víki aðeins, virðulegi forseti, að því gengisfyrirkomulagi sem nú er við lýði hér á landi, þá er rétt að benda á að það er með öðrum hætti en gengur og gerist á öðrum Norðurlöndum og reyndar í öðrum nágrannaríkjum okkar í röðum iðnríkjanna. Seðlabanki Íslands reiknar út og auglýsir gengi krónunnar á hverjum morgni og það stendur óbreytt til næsta dags. Bankinn er skuldbundinn til þess að kaupa og selja erlendan gjaldeyri á hinu auglýsta gengi í þeim mæli sem óskir berast um. Markaðsöflin hafa því ekki bein áhrif á daglegt gengi krónunnar eins og tíðkast annars staðar í iðnríkjum. Stöðugt gengi sem ákveðið er einhliða af stjórnvöldum með þessum hætti með auglýsingu er vitaskuld ekki jafntrúverðugt og það sem hefur verið sannreynt á virkum gjaldeyrismarkaði með viðskiptum. Til þess að búa hér þannig um hnútana að trúverðugleiki og stöðugleiki í gengi geti haldist til frambúðar er að mínu áliti alveg nauðsynlegt að markaðsöflin geti haft meiri áhrif á gengi krónunnar en nú er raunin.
    Í okkar nágrannalöndum ræðst daglegt gengi gjaldmiðlanna, að vísu innan tilgreindra marka af framboði og eftirspurn á gjaldeyrismarkaði en ekki með einhliða ákvörðun Seðlabanka eins og hér tíðkast. Þannig hefur þetta verið í öllum okkar nágrannaríkjum og okkar helstu viðskiptalöndum um alllangt skeið. Gengisstöðugleiki í þessum ríkjum felst fyrst og fremst í því að seðlabankarnir í þessum löndum leitast við að halda gengi gjaldmiðlanna innan þeirra viðmiðunarmarka sem ákveðin hafa verið með kaupum og sölu

á gjaldeyrismarkaði og öðrum aðgerðum í peningamálum eins og vaxtabreytingum og sölu skuldabréfa.
    Þrátt fyrir nýlega fasttengingu gjaldmiðlanna í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi við ECU er gert ráð fyrir að gengi þeirra geti sveiflast nokkuð eftir aðstæðum. Í Noregi eru sveiflumörkin 2 1 / 4 % til hvorrar handar frá gengi krónunnar gagnvart ECU eins og það var þegar tengingin við þá mynteiningu var ákveðin. Í Svíþjóð eru þessi sömu sveiflumörk 1 1 / 2 % til hvorrar handar og 3% í Finnlandi, en eins og kunnugt er hafa Finnar nýlega neyðst til að fella gengi krónunnar þrátt fyrir þessa tengingu við ECU. Efnahagsstefna stjórnvalda og aðgerðir Seðlabankans í peninga- og gjaldeyrismálum eru miðaðar við það í þessum löndum að halda genginu innan þessara marka.
    Í Evrópska myntkerfinu ræðst gengi gjaldmiðla af framboði og eftirspurn á gjaldeyrismarkaði en stjórnvöld og seðlabankar eru gagnkvæmt skuldbundin til þess að halda gengi gjaldmiðlanna innan ákveðinna marka hver hjá sér á sínum markaði. Meginreglan í þessu samstarfi er að gengi gjaldmiðlanna megi sveiflast um 2 1 / 4 % til hvorrar handar hver gagnvart öðrum, en einnig er í undantekningartilfellum miðað við um 6% í báðar áttir frá viðmiðunargenginu og gildir þessi rýmri regla, þessi víðari mörk, fyrir breskt pund og spánskan peseta í evrópska samstarfinu.
    Eins og kunnugt er hafa hagrannsóknir sýnt að sveiflur í íslenskum þjóðarbúskap hafa á umliðnum áratugum verið meiri en í flestum öðrum ríkjum á hliðstæðu tekjustigi, flestum öðrum iðnríkjum, þótt finna megi hliðstæður fyrir snöggar breytingar í efnahag hinna smærri iðnríkja. Hins vegar má sýna fram á að úr þessum sveiflum hefur heldur dregið á síðari árum. Sveiflurnar eiga eins og vel er þekkt er að verulegu leyti rætur að rekja til sjávarútvegs vegna breytinga á afla og viðskiptakjörum. Viðskiptakjör Íslendinga byggjast m.a. á þróun sjávarafurðaverðs sem auðvitað þarf ekki að þróast með sama hætti og útflutningsverð iðnaðarvara. Íslenska þjóðarbúið verður því fyrir áföllum og búhnykkjum sem þurfa ekki að falla saman við hagþróun í iðnríkjunum. Sveiflurnar í þjóðarbúskapnum, og sérstaklega sú staðreynd að fylgni þeirra við sveiflur í öðrum iðnríkjum er ekki eins mikil og gerist í hinum minni Evrópuríkjum, gera gengisstöðugleika á Íslandi vandasamari en annars staðar. Að nokkru leyti má sníða af þessa vankanta með því að efla hér sveiflujöfnunarkerfi í sjávarútvegi, með virkari sveiflujöfnun í skattlagningu fyrirtækja, með virkari stjórn ríkisfjármála og peningamála, en síðast en ekki síst með þróun nýrra útflutningsgreina. En til þess að stefna stöðugs gengis geti talist raunhæf er óhjákvæmilegt að skapa þau skilyrði að sjávarútvegsfyrirtækin verði almennt rekin með verulegum hagnaði í góðæri og geti þolað tap í hallæri. Að þessu má m.a. stuðla með sveiflujöfnunarsjóðum og aðgerðum í skattamálum. Það er ljóst að sjávarútvegurinn þarf að vera undir það búinn að taka á sig verulegar sveiflur í afkomuskilyrðum verði gengi krónunnar haldið stöðugu til langframa.
    Verði að því horfið að halda genginu stöðugu innan hinna tiltölulega víðari fráviksmarka til hækkunar eða lækkunar, t.d. til 6% eins og í Bretlandi og Spáni, mætti þó hugsa sér að jafna slíkar sveiflur að nokkru með því að leyfa genginu að hækka innan markanna á uppgangstímum og lækka þegar á móti blæs. Slíkur sveigjanleiki ætti einnig að gera það trúverðugra að gengið haldist stöðugt til lengri tíma litið og að verðbólga hér á landi verði á svipuðu stigi og í nágrannaríkjunum. Til þess að tryggja að stefna stöðugs gengis fáist staðist til langframa þarf að breyta ýmsu í stjórn efnahagsmála á Íslandi. Stefnan í ríkisfjármálum og peningamálum verður að styðja gengisstefnuna með því að tryggja að heildareftirspurn í efnahagslífinu samrýmist hverju sinni stöðugleika í verðlagsmálum.
    Þetta yrði mikil breyting frá þeirri stefnu sem fylgt hefur verið undanfarna áratugi. Iðulega hefur stefnan í ríkisfjármálum og peningamálum því miður aukið á þenslu í efnahagslífinu sem aftur hefur leitt til verðlags- og kostnaðarhækkunar og þannig stefnt afkomu atvinnuvega í óefni. Þá er ljóst að ákvarðanir í almennum launa- og kjaramálum verða jafnan að byggjast á raunsæju mati á efnahagslegum forsendum kjaranna. Í þessu felst í stórum dráttum að almennar launabreytingar geti naumast verið umfram það sem gerist og gengur í nágrannalöndum okkar nema framleiðniaukning sé meiri hér á landi. Þegar skilyrði þjóðarbúsins eru óhagstæð, eins og nú háttar t.d., er hins vegar óhjákvæmilegt, ef halda á stöðugu gengi, að almennar launahækkanir séu heldur minni en í nágrannaríkjunum. Sé þróun efnahagsmála á hinn bóginn hagstæðari en annars staðar getur myndast svigrúm til frekari launahækkunar.
    Trúverðug stefna stöðugs gengis mundi gerbreyta starfsskilyrðum sjávarútvegs. Gengisstefnan hefur um árabil einkum tekið mið af afkomu hans. Hafi aflinn dregist saman eða verð á sjávarafurðum fallið hefur gengið iðulega verið fellt til að treysta stöðu greinarinnar. Það sama hefur gerst þegar innlendar verðlags- og kostnaðarhækkanir hafa gert afkomuna óbærilega. Hafi aflinn aukist eða verð á sjávarafurðum hækkað hefur genginu á hinn bóginn oftast nær verið haldið stöðugu en innlent verðlag og kostnaður smám saman hækkað þar til afkoman hefur rýrst að nýju. Afturkippur í afla eða viðskiptakjörum hefur síðan leitt til gengisfellingar. Þannig hefur genginu einungis verið beitt til að gera afturkippinn bærilegan en ekki til að takmarka þensluna með gengishækkun. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort stöðugleiki í gengi sé ekki betri kostur.
    Til að unnt sé að byrja að þróa hér á landi gjaldeyrismarkað og auka sveigjanleika í gengisfyrirkomulaginu, þannig að gengið ráðist í auknum mæli af markaðsaðstæðum, er annars vegar nauðsynlegt að rýmka ákvæðið um skilaskyldu erlends gjaldeyris í lögunum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, eins og frv. verður flutt um hér á þinginu síðar og e.t.v. fyrir því mælt þegar í dag, og hins vegar breyta ákvæðinu um gengisskráningu íslensku krónunnar í lögunum um Seðlabanka Íslands.
    Því er í 2. gr. frv. gerð tillaga um grundvallarbreytingu á ákvæði í seðlabankalögunum um gengisskráningu krónunnar. Þar er nú lagt til að í stað núgildandi orðalags, þess efnis að Seðlabankinn ákveði að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar hvert verðgildi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum skuli vera, hljóði lagaákvæðið á þá leið að Seðlabankinn ákveði að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar hvernig verðgildi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum skuli ákveðið. Með öðrum orðum er lagt til að Seðlabankinn ákveði ekki endilega verðið einhliða heldur einungis gengisfyrirkomulagið. Þá er lagt til að heimilt verði að ákveða að gengi krónunnar miðist við einn ákveðinn erlendan gjaldmiðil, t.d. Bandaríkjadollar, sænska krónu, enskt pund eða einhvern annan gjaldmiðil, samsettan gjaldmiðil eins og ECU eða SDR eða meðaltal gjaldmiðla, ýmist með eða án fráviksmarka. Þá er Seðlabankanum heimilað með kaupum og sölu á erlendum gjaldeyri eða með öðrum þeim aðgerðum sem hann telur nauðsynlegar að hlutast til um að gengi krónunnar haldist innan þeirra marka sem ákveðin kunna að verða.
    Þetta þýðir í raun og veru að innan þess lagaákvæðis sem hér er gerð tillaga um getur rúmast núverandi gengisfyrirkomulag, þ.e. að Seðlabankinn ákveði sjálfur verð krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum heims, einhliða með auglýsingu, og jafnframt á þetta ákvæði að rúma það gengisfyrirkomulag og þau markaðsviðskipti sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.
    Ég vil geta þess að á öðrum Norðurlöndum hefur löggjafinn framselt til framkvæmdarvaldsins, ríkisstjórnar og/eða seðlabanka valdið til að ákveða hvernig verðgildi gjaldmiðlanna skuli ákveðið. Í Danmörku leiðir þetta beint af þátttöku landsins í myntkerfi Evrópubandalagsins. Í lögunum um norska seðlabankann segir að hann skuli skrá gengið eftir nánari reglum sem ríkisstjórnin setur. Í lögunum um sænska seðlabankann er

honum einum falið að ákveða hvernig verðgildi krónunnar skuli ákveðið. Í Finnlandi er fjallað um gengisfyrirkomulagið í sérstökum lögum en ekki í lögunum um finnska seðlabankann. Í þessum lögum um gengi finnska marksins er nú sagt að það skuli miðast við gengisvog sem samanstandi af gjaldmiðlunum sem mynda ECU en ríkisstjórnin, að fenginni tillögu frá seðlabankanum, hefur valdið til að ákveða fráviksmörkin. Nýleg reynsla Finna með 14% falli finnska marksins, svo skjótt eftir að þeir ákváðu að tengjast ECU-mynteiningunni, sýnir glöggt hversu mikilvægt það er að tenging gjaldmiðils við myntkerfi eins og ECU sé vandlega undirbúin og hagstjórnin sé miðuð við það að hún fái staðist. Það er tilgangur þessa frv., virðulegi forseti.
    Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.