Seðlabanki Íslands

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 16:38:00 (1074)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég vil benda á að þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir um hvort ástæða sé til að klára umræðuna fyrr en hæstv. sjútvrh. getur fylgst með höfum við ekki fengið nein svör frá virðulegum forseta þar að lútandi. Ég hafði sem fulltrúi í efh.- og viðskn. búið mig undir að ræða þetta mál með sérstöku tilliti til þess að hæstv. sjútvrh. tæki þátt í umræðunni líka. Málið er þess eðlis, það tengist sjávarútveginum meira en nokkurri annarri atvinnustarfsemi hér á landi að ég sé ekki að það þjóni miklum tilgangi að við höldum umræðunni mikið lengur áfram án þátttöku hæstv. sjútvrh.
    Þá vil ég einnig benda á, virðulegur forseti, sem mér var reyndar ekki ljóst fyrr en af viðtölum við stjórnarþingmenn hér niðri á gangi áðan, að efnislegum grundvallaratriðum um málið hefur ekki verið dreift til þingmanna. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en þá að skýrsla sú sem við höfum haft til umfjöllunar í efh.- og viðskn. frá Seðlabankanum er ekki í höndum annarra þingmanna hér og stjórnarþingmenn segja mér að þeim sé sagt að hún sé ekki til dreifingar þannig að ég vil, virðulegur forseti, fara fram á að úr þessu verði bætt líka þannig að allir þingmenn, ekki einungis þeir sem eru í efh.- og viðskn., hafi frumgögn málsins undir höndum og geti tekið þátt í umræðunni út frá þeim.