Ríkisreikningur 1989

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 17:01:00 (1078)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1989. Þetta verður því eins konar kennslustund í sögu ríkisfjármála.

    Í athugasemdum við lagafrv. er það skýrt nokkuð nákvæmlega. Það er ljóst að talsverð breyting er á uppsetningu þessa ríkisreiknings miðað við ríkisreikninga árin á undan og þess vegna ekki við því að búast að hægt sé að bera saman ríkisreikning fyrir árið 1989 og þá ríkisreikninga sem áður hafa verið samþykktir á hinu háa Alþingi.
    Frv. er að sjálfsögðu samið eftir ríkisreikningi en hann var lagður fyrir Alþingi með bréfi fjmrh. til virðulegs forseta Alþingis í september á þessu ári.
    Í athugasemdum með frv. er gerð ítarleg og góð grein fyrir því í hverju breytingarnar sem ég minntist fyrr á í ræðu minni eru fólgnar. Fyrst og fremst er gerð tilraun til að færa upp ýmsar skuldbindingar sem ríkisvaldið hefur samþykkt en ekki hefur verið hægt að sjá í ríkisreikningi á undanförnum árum. Þetta er liður í vinnu svokallaðrar reikningsskilanefndar sem starfar annars vegar á vegum fjmrn. og hins vegar Ríkisendurskoðunar, en helsta verkefni þeirrar nefndar er að gera nauðsynlegar breytingar á ríkisreikningi, á uppsetningu fjárlaga og koma þessum atriðum í framtíðarbúning, framtíðarhorf.
    Mestu skiptir að hægt sé að lesa úr ríkisreikningi og reyndar fjárlögum á hverjum tíma, bæði tekjur og útgjöld, en þó ekki síður þær skuldbindingar sem ríkisvaldið hefur gengist undir þannig að hægt sé að meta að nokkru leyti efnahag ríkisins á hverjum tíma. Það hlýtur að vekja athygli í þessu frv. hve skuldbindingar vegna Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna eru miklar og jafnframt eru það markverðar upplýsingar sem koma fram um skuldbindingar að öðru leyti.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um þessi atriði. Þeim er lýst í athugasemdum við frv. og vísa ég til þeirra. Að svo mæltu óska ég eftir því að frv. verði sent eins og lög gera ráð fyrir til hv. fjárln. og til 2. umr.