Staðlaráð Íslands

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 17:06:02 (1079)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tveimur frv. um tengd málefni. Hið fyrra er frv. til laga um stofnun hlutafélags um Staðlaráð Íslands. Þetta frv. er á þskj. 115. Hið síðara er frv. til laga um breytingar á lagaákvæðum sem varða stöðlun og fleira og er safn nauðsynlegra lagabreytinga sem leiða af samþykkt fyrra frv. Þetta fylgifrv. er á þskj. 116.
    Frú forseti. Til að rifja nokkuð upp forsögu þessa máls vil ég nefna að frv. til laga um stöðlun var fyrst lagt fram á 112. löggjafarþingi. Þar var það ekki tekið til umræðu heldur eingöngu sýnt til kynningar. Að fengnum umsögnum helstu hagsmunaaðila var þetta frv. endurskoðað og svo lagt fram að nýju á 113. löggjafarþingi. Þar var það ekki útrætt. Frv. er nú lagt fram á nýjan leik en í nokkuð breyttri mynd. Annars vegar er lagt til annað rekstrarform á Staðlaráði Íslands en gert var ráð fyrir í fyrri útgáfum frv. Hins vegar hafa ákvæði, sem vörðuðu breytingar á ákvæðum ýmissa laga þar sem vikið er að stöðlum, nú verið skilin frá meginfrumvarpinu og sett í sérstakt fylgifrv. eins og ég lýsti áðan.
    Ég ætla fyrst að víkja að efni frv. um stofnun hlutafélags um Staðlaráð Íslands. Tilgangurinn með frumvarpsflutningnum er tvíþættur. Annars vegar að styrkja lagagrundvöll reglna um staðla hér á landi. Hins vegar að breyta rekstrarformi núverandi staðladeildar Iðntæknistofnunar Íslands í hlutafélag. Stjórn Iðntæknistofnunar fól nokkrum hagsmunaaðilum í október 1987 að annast skyldur stofnunarinnar gagnvart stöðlum. Þessir aðilar komu saman á vettvangi sem þeir nefndu Staðlaráð Íslands og tengist staðladeild stofnunarinnar órjúfanlegum böndum. Stjórn Iðntæknistofnunar samþykkti starfsreglur fyrir ráðið og þessa deild í október 1987 með heimild í 3. mgr. 2. gr. laga 41/1978, um Iðntæknistofnun Íslands. Lagalegur grundvöllur starfseminnar er hins vegar ekki fullnægjandi miðað við þá auknu áherslu sem nú er lögð á stöðlun og tengda starfsemi í Evrópu, þar á meðal á Íslandi.
    Á alþjóðavettvangi hefur einkum verið fjallað um staðla í viðræðum um afnám viðskiptahindrana milli landa. Gerður hefur verið samningur á vettvangi GATT um afnám viðskiptahindrana á tæknisviði. Í samningnum eru hugtökin staðall og stöðlun skilgreind. Auk þess er kveðið á um að vísað skuli til alþjóðlegra staðla í opinberum stjórnvaldsfyrirmælum fremur en að tilgreina í einstökum atriðum hverjar tæknilegar kröfur skuli gera til vöru eða þjónustu í reglugerðarákvæðum einstakra stjórnvalda.
    Það er eitt megineinkenni staðlaaðferðarinnar að þeir eru samdir í samvinnu og samráði við helstu hagsmunaaðila. Í þeim endurspeglast, eða ætti að endurspeglast, góður framkvæmdamáti að bestu manna yfirsýn. Það leiðir af þessu að enginn einstaklingur eða stofnun getur samið staðal án samráðs við þá sem við hann eiga að búa. Þetta nána samráð greinir staðlana frá öðrum vörureglum og forskriftum.
    Annað atriði sem greinir staðla frá öðrum stjórnvaldsfyrirmælum er að þeir eru frávíkjanlegir. Vegna þessra eiginleika ákvað framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins að staðlarnir skyldu gegna veigamiklu hlutverki í áformum þess að mynda einn markað á efnahagssviði aðildarríkja bandalagsins fyrir árslok 1992. Lögbundin samhæfing í tilskipunum Evrópubandalagsríkja á tæknisviðinu er takmörkuð við grunnkröfur um öryggi og heilsu manna og dýra og verndun umhverfis. Síðan var þeim stofnunum sem lengi hafa unnið að stöðlun í iðnaði fengið það hlutverk að semja tæknilegar forskriftir í einstökum atriðum, þ.e. staðlana. Framleiðendum er í sjálfsvald sett hvort þeir nota staðlana. Hins vegar er einfaldara fyrir þá sem nota staðlana að sýna fram á að framleiðsluvaran uppfylli grunnkröfurnar.
    Evrópubandalagið gerði rammasamning við evrópsku staðlasamböndin CEN og CENELEC um að stýra gerð þeirra staðla sem gert væri ráð fyrir í tilskipunum bandalagsins. Í samningunum er það gert að skilyrði að samþykktir staðlar, svonefndir Evrópustaðlar, verði gerðir að landsstöðlum í aðildarríkjum þessara staðlasambanda. Innan missiris frá samþykkt þeirra voru þeir landsstaðlar numdir úr gildi sem brjóta í bága við Evrópustaðlana. EFTA-ríkin fylgdu á eftir og gerðu sams konar samninga við þessi evrópsku staðlasambönd. Þannig eru smátt og smátt að verða til samræmdir staðlar á æ fleiri sviðum framleiðslu og starfsemi um alla Vestur-Evrópu. Í samningunum um Evrópskt efnahagssvæði er vísað til þessara staðla í stjórnvaldsfyrirmælum á tæknisviðinu og við opinber innkaup.
    Staðlaráð Íslands gerðist aðili að evrópsku staðlasamböndunum CEN og CENELEC um mitt árið 1988.
    Með þeirri nýju stefnu sem ég hef lýst breytist hlutverk þeirra sem semja staðla í smærri Evrópuríkjum í mjög verulegum greinum. Áður voru nánast einvörðungu samdir staðlar sem iðnaðurinn taldi sig þurfa á að halda á þeim hraða sem aðstæður leyfðu hverju sinni. Engar kvaðir lágu á stjórnvöldum að vísa til staðlanna. Á 30 ára tímabili höfðu

þannig verið staðfestir um 50 staðlar á Íslandi en síðan Staðlaráðið gerðist aðili að evrópsku staðlasamböndunum hafa um 900 staðlar verið staðfestir. Í ljósi þess mikilvæga hlutverks sem stöðlum er ætlað í framtíðinni að gegna innan hins sameiginlega evrópska markaðssvæðis er öllum Evrópuríkjum nauðsynlegt að fylgjast vel með samningu þeirra og taka þátt í þeirri vinnu á þeim sviðum sem varðar beina hagsmuni þeirra, t.d í útflutningsgreinum okkar og í helstu innlendum samkeppnisgreinum.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að rekja í þessari framsöguræðu nákvæmlega ákvæði allra 13 greina frv. en mig langar að fara nokkrum orðum um sex meginþætti þessa máls.
    1. Hér er lagt til að stofnað verði sjálfstætt hlutafélag, Staðlaráð Íslands hf., sem tekur við allri starfsemi núverandi staðladeildar Iðntæknistofnunar Íslands og hlutverki Staðlaráðs Íslands. Kostir þessa fyrirkomulags eru ótvíræðir. Sveigjanleiki í rekstri eykst, ábyrgð ríkissjóðs á félaginu takmarkast við hlutafjáreign og fjárhagsleg ábyrgð stjórnenda kemur líka til með að aukast. Ætlunin er að reka félagið án hagnaðarmarkmiðs og er félagið ólíkt öðrum hlutafélögum að því leyti. Að öðru leyti hefur félagið enga sérstöðu fram yfir önnur fyrirtæki í landinu og ýmsir kostir þess að reka fyrirtækið í hlutafélagsformi munu koma því að góðu haldi. Fram að stofnfundi félagsins skal kveðja innlenda áhuga- og hagsmunaaðila til samvinnu við stofnun og starfrækslu þess. Við stofnun skal þó a.m.k. helmingur hlutafjárins vera í eigu ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður leggi félaginu til starfsemi eignir staðladeildar Iðntæknistofnunar og að fram fari mat á eignum hennar til að hafa til viðmiðunar við ákvörðun hlutafjár í hinu nýja félagi. Þá getur ríkissjóður ekki boðið meiri hluta hlutabréfa í félaginu til sölu nema hafa til þess samþykki Alþingis.
    2. Í frv. er kveðið á um að hið nýja félag verði vettvangur stöðlunar fyrir íslenskt atvinnulíf og neytendur. Nánari ákvæði um hlutverk og starfsemi félagsins verða í samþykktum þess. Félaginu er falið að koma fram fyrir hönd landsins í alþjóðlegu samstarfi staðlaráða. Með aðildinni að evrópsku staðlasamböndunum hafa Íslendingar játast undir þá skyldu að gera evrópsku staðlana að sínum. Aðildin er þannig liður í aðlögun að samræmdum Evrópumarkaði og það verður því að teljast eðlilegt að ríkisvaldið sem væntanlega tekur þær ákvarðanir tryggi grunnfjármögnun vinnunnar vegna þessarar skyldu. Ekki er verið að gera tillögur um nýja útgjaldaliði fyrir ríkissjóð því á undanförnum árum hefur Staðlaráð auk hluta þess í fjárveitingu Iðntæknistofnunar fengið sérstaka fjárveitingu til þess að sinna einmitt þessum verkefnum, Evrópustöðlunum. Aukin verkefni Staðlaráðs og staðlaráðanna í Evrópu yfirleitt valda því að framlög ríkisins til þessa málaflokks hafa aukist að mun í flestum ríkjum Evrópu. Ráðgert er, en þess er þó ekki getið í frv., að gerður verði þjónustusamningur milli iðnrn. og Staðlaráðs Íslands hf. þar sem skilgreind verði lágmarksmeðferð staðla og að kostnaður ríkissjóðs sem af henni hlýst verði greiddur af framlögum í fjárlögum. Jafnframt er gert ráð fyrir því að öll vinna Staðlaráðs umfram skilgreinda lágmarksmeðhöndlun staðlanna samkvæmt samningnum við iðnrn. verði greiddur af þeim sem óskar eftir henni hverju sinni. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði vegna þess að fyrst og fremst er um það að ræða að atvinnulífið beri sjálft þennan kostnað. Auk stöðlunar er lagt til að Staðlaráði verði heimilt að starfa að skyldum verkefnum og er því m.a. átt við upplýsingaþjónustu og vottunarþjónustu. Jafnframt er Staðlaráði heimilað að taka þátt í félögum með takmarkaðri ábyrgð sem veita slíka eða skylda þjónustu.
    3. Reglur um birtingu staðla og rétt til athugasemda verða gerðar skýrari en nú er og tryggt að víðtækt samráð verði um efni staðlanna. Með þessu er lagður grunnur að því að við samningu reglugerða verði í framtíðinni í ríkara mæli vísað til staðla í fyrirmælum stjórnvalda.

    4. Ákveðið er hvernig fara beri með skilgreiningu mikilvægra hugtaka á sviði stöðlunar og hvað geti talist íslenskur staðall.
    5. Kveðið er á um það að iðnrh. fari með eignarhluta ríkissjóðs í félaginu. Jafnframt er ákveðið að honum sé heimilt en ekki skylt að skipa allt að sjö manna umsagnarráð helstu hagsmunaaðila stjórn félagsins til ráðuneytis og aðstoða um gerð staðla og stöðlun. Þetta er þeim mun mikilvægara ef eignaraðild að félaginu verður ekki mjög dreifð í upphafi.
    6. Loks vil ég í síðasta lagi geta þess að verði þetta frv. að lögum hverfur staðladeild Iðntæknistofnunar og þar með þær sex stöður sem henni tilheyra. Hér er því í reynd um að ræða einkavæðingu á ríkisstarfsemi og fækkun ríkisstarfsmanna. Í frv. er gert ráð fyrir að fastráðnum starfsmönnum deildarinnar verði boðið starf hjá hinu nýja hlutafélagi.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð um fylgifrv. á þskj. 116. Þær lagabreytingar sem þar eru gerðar tillögur um miða allar að því að samtímis gildistöku laga um Staðlaráð Íslands hf. breytist orðalag um staðla og stöðlun í nokkrum lögum og lagagreinum. Þessar breytingar eru nauðsynlegar þar sem orðin staðall og stöðlun eru notuð í merkingu sem ekki eru í samræmi við alþjóðaskilgreiningar.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvörpunum verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.