Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 17:19:02 (1081)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur sem er að finna á þskj. 95.
    Vorið 1989 voru samþykkt hér á hinu háa Alþingi lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur. Þetta eru lög nr. 52 frá 29. maí 1989. Framkvæmd þessara laga heyrði á sínum tíma undir iðnrh. en í framhaldi af stofnun umhvrn. í febrúar 1990 var framkvæmd laganna lögð undir umhvrh. með lögum nr. 47/1990. Í 1. gr. þessara laga, nr. 52/1989, segir, með leyfi forseta:
    ,,Á innfluttar drykkjarvörur í einnota umbúðum úr málmi, gleri eða plastefni skal leggja skilagjald sem innheimt skal við tollafgreiðslu. Má gjaldið nema allt að 10 kr. á hverja umbúðaeiningu og er ráðherra heimilt að hækka hámarksfjárhæðina í samræmi við breytingar á verði drykkjarvaranna við gildistöku laga þessara. Sama gjald skal lagt á drykkjarvörur sem framleiddar eru eða átappaðar hér á landi og seldar eru í sams konar umbúðum og að framan greinir. Skal greiða gjaldið samhliða vörugjaldi af innlendum

drykkjarvörum. Til viðbótar skilagjaldi skal með sama hætti leggja á umsýsluþóknun sem í fyrstu nemur 1% af skilagjaldi, en ráðherra er heimilt að hækka hana í allt að 5% af skilagjaldi.
    Að svo miklu leyti sem ekki er kveðið á um í lögum þessum skulu ákvæði laga nr. 97/1987, um vörugjöld, með síðari breytingum, eiga við um álagningu, innheimtu, viðurlög, kærur, eftirlit og aðra framkvæmd gjaldtöku samkvæmt þessari grein.``
    Í 2. gr. er síðan mælt fyrir um stofnun hlutafélags sem taki að sér umsýslan skilagjaldsins og söfnun og endurvinnslu einnota umbúða sem lögin taka til.
    Í byrjun júní 1989 var félagið stofnað, Endurvinnslan hf., en að því fyrirtæki standa 15 hluthafar. Þeir eru ríkissjóður með 12 millj. kr. framlagi, samkvæmt heimild í 2. gr. laganna, svo og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Kaupmannasamtök Íslands, Íslenska álfélagið hf., Íslenska járnblendifélagið hf., Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf., Vífilfell hf., Sanitas hf., Sól hf., Hringrás hf., Sindrastál hf., Íslenska stálfélagið, Bandalag ísl. skáta, Gúmmívinnslan hf. og Samband ísl. sveitarfélaga.
    Í lögunum er svo fyrir mælt að félagið hafi einkarétt hér á landi til þeirrar starfsemi sem lögin taka til.
    Hinn 1. júní 1989 tók gildi reglugerð um söfnun og endurvinnslu einnota umbúða fyrir drykkjarvörur og samkvæmt reglugerðinni var lagt skilagjald, 5 kr. á innflutt öl og gosdrykki og aðra slíka drykki í einnota umbúðum úr málmi, gleri, plasti eða sambærilegum efnum, svo og öl og gosdrykki eða slíka drykki sem framleiddir eru eða átappaðir hér á landi og seldir í sams konar umbúðum. Með reglugerð nr. 254/1991 var skilagjaldið hækkað í 6 kr.
    Svo víðtæk lögbundin söfnun einnota umbúða hafði hvergi verið framkvæmd í heiminum áður að mér er tjáð, en skilagjald á eina tegund einnota umbúða þekktist í nokkrum löndum. Þá er annaðhvort lagt skilagjald á áldósir eða plastflöskur en söfnun á einnota gleri fer fram án skilagjalds. Hægt var að nota erlend kerfi til hliðsjónar en það er gerólíkt að hafa skilagjald á einni tegund umbúða, jafnvel í einni stærð og að hafa þrjár tegundir umbúða, hverja í mörgum stærðarflokkum. Það þarf móttökuvélar til að taka við þessum umbúðum. Þær eru ekki til fyrir allar þesar tegundir og auk þess dýrar. Endurvinnslan þurfti því að búa til sérstakt söfnunarkerfi sem hæfði íslenskum aðstæðum.
    Skilagjaldið var lagt á frá og með 1. júní 1989 og endurgreiðsla á vegum Endurvinnslunnar hf. hófst 8. ágúst sama ár eða tveimur mánuðum eftir stofnun fyrirtækisins. Þá var búið að koma á fót til bráðabirgða móttökustöðvum í Reykjavík og nær öllum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni.
    Á þeim tíma sem liðinn er hefur verið unnið að uppbyggingu móttöku- og endurgreiðslukerfis til frambúðar og hefur mikið áunnist í þeim efnum. Nú þegar eru á höfuðborgarsvæðinu átta stórmarkaðir sem hafa vélvæðst til að taka við þessum umbúðum auk nokkurra verslana og söluturna. Endurvinnslan hf. er með móttöku í bækistöðvum fyrirtækisins við Knarrarvog í Reykjavík. Þar er vélamóttaka og þar er hægt að skila beygluðum umbúðum og einnig koma með mikið magn flokkaðra og talinna umbúða í einu. Á landsbyggðinni er þessi vélvæðing ekki langt komin en unnið hefur verið að samningum við einn aðila á hverjum þéttbýlisstað um móttöku og endurgreiðslu skilagjalds. Nú hafa um 65% íbúa á landsbyggðinni aðgang að slíkri móttöku í sinni heimabyggð eða nágrenni og fer það hlutfall hækkandi.
    Hér á landi hafa menn tekið mjög vel við sér varðandi söfnun og skil þessara umbúða. Á fyrstu mánuðum síðasta árs skiluðu sér um 68% þeirra umbúða sem seldar voru á því tímabili sem hér er um að ræða eða viðmiðunartímabilinu. Á þessu ári er skilaprósentan komin í 73%. Til hliðsjónar má benda á að Svíar eru með skilagjald á dósum og

á fyrstu tveimur árunum náðu þeir 60% skilum.
    Mikið hefur einnig áunnist til umhverfisbóta með álagningu skilagjaldsins. Umbúðir af þessu tagi sjást nú varla lengur úti í náttúrunni og almenn vitund Íslendinga um umhverfisvernd hefur aukist þannig að aðrar umbúðir og rusl lendir nú miklu frekar í ruslakörfunni en að því sé eins og oft var því miður áður, hent hugsunarlaust þar sem menn voru staddir.
    Mótteknum umbúðum bæði töldum og ótöldum var stefnt til höfuðstöðva Endurvinnslunnar, en mest af því gleri sem malað er á landsbyggðinni er þó urðað á talningarstað. Í höfuðstöðvum Endurvinnslunnar er til staðar búnaður til að bagga plastflöskur og áldósir ásamt glermulningsvél. Mest endurvinnsluverðmæti er í áldósum en einnig er flutningur á hverri dós verulega hagkvæmari en flutningur á plast- og glerflöskum.
    Álbaggarnir eru settir í 40 feta gám og komast um 22 tonn í gáminn. Þetta er síðan selt erlendis þar sem álið er brætt upp og notað að nýju sem hráefni í áliðnaði. Á þessu ári munu fara um 400 tonn af áldósum til útlanda á vegum Endurvinnslunnar og skila um 30 millj. ísl. kr. í verðmæti. Plastbaggarnir fara einnig í gáma, um 18 tonn í hvern 40 feta gám. Þetta plast er selt til endurvinnslustöðvar í Hollandi sem hreinsar plastið og tætir það. Frá Hollandi fer plastið til Írlands þar sem það er þurrkað, hitað og pressað í fíngerða þræði og eftir meðhöndlun eru þessir plastþræðir notaðir sem hráefni í margs konar vinnslu, t.d. í teppi, einangrun í kuldaklæðnað og svefnpoka. Það er reiknað með að bagga um 600 tonn af plastflöskum á þessu ári að verðmæti um 14 millj. ísl. kr.
    Glermulningurinn er minnsta verðmætið af þeim efnum sem Endurvinnslan hf. meðhöndlar. Leitað hefur verið eftir leiðum til að nýta þennan glersalla með hagkvæmum hætti en það hefur ekki tekist. Magnið er ekki nægilega mikið til þess að glerbræðsla hérlendis sé hagkvæm þannig að nú eru helstu notin af þessu efni til uppfyllingar við vegagerð eða sem síunarlag í jarðvegsfyllingar, einkum er þetta hagkvæmt t.d. þar sem sorp er urðað vegna þess að nagdýr fara ekki í gegnum glersallalag af þessu tagi. Ýmsir aðilar eru þó að kanna aðra notkunarmöguleika.
    Áður en Endurvinnslan hóf söfnun þessara umbúða, voru þær urðaðar með öðru sorpi. Urðun er dýr og rúmfrek og land stundum vandfundið. Á þessu ári mun Endurvinnslan hf. pressa og senda utan um 36 þús. m 3 af ópressuðum áldósum og plastföskum og sparast sveitarfélögunum í landinu þar með mikill urðunarkostnaður.
    Viðhorf Íslendinga til þessara mála hafa breyst mikið á síðustu tveimur árum og Endurvinnslan hf. og fyrirtæki í þeirri grein eiga tvímælalaust framtíð fyrir sér. Skilagjald á einnota drykkjarvöruumbúðir hefur stuðlað að umhverfisvernd, en mikið er enn af margs konar umbúðum og efnum í notkun í þjóðfélaginu sem möguleiki er á að safna saman og endurvinna og þar sem auðlindir jarðar eru ekki ótæmandi er mikils virði að nýta þær sem best. Raunar ætti að hugsa til þess í því sambandi að taka hér upp í auknum mæli fjölnota umbúðir, gler eins og sums staðar er verið að gera erlendis og eru áform uppi um t.d. í ákveðnum borgum í Þýskalandi og horfa til þess að draga heldur úr notkun umbúða af því tagi sem hér um ræðir, þessara einnota umbúða.
    Á vegum Endurvinnslunnar er verið að kanna möguleika á því að endurvinna sérstaklega rúllubaggaplast sem svo er kallað og allir þekkja sem farið hafa um landið undanfarin ár þar sem vélvæðingin og tæknivæðingin í landbúnaði hefur verið undra ör þótt feikna dýr sé. Árið 1990 voru flutt inn 460 tonn af slíku plasti. Á þessu ári er talið að innflutningurinn sé a.m.k. 600 tonn og það er ekki líklegt að úr honum dragi. Þetta plast er e.t.v. þegar farið að valda umhverfisspjöllum og því er mjög nauðsynlegt að því verði safnað saman og komið til endurvinnslu. Það eru vissir tæknilegir örðugleikar á því m.a. vegna líms sem notað er á þetta plast og spillir fyrir í endurvinnslu en vonir standa þó til að úr

þessu rætist áður en langt um líður.
    Þá er stefnt að endurvinnlu áburðarpoka og annars plasts sem notað er í landbúnaði. Sitthvað fleira mætti nefna sem er skemmra á veg komið.
    Þetta frv. felur í sér eftirfarandi breytingar frá þeim lögum sem nú gilda:
    Í fyrsta lagi er heimild til innheimtu skilagjalds hækkuð úr 10 í 12 kr. á hverja einingu.
    Í öðru lagi heimild til innheimtu umsýslugjalds sem rennur til Endurvinnslunnar hf. er hækkuð í allt að 20% af skilagjaldi í stað 5% af hámarki í gildandi lögum.
    Í þriðja lagi verður innheimta skilagjalds að stærri hluta gerð í tolli en áður. Miðað er við að skilagjald verði innheimt við innflutning umbúða, ekki átöppun drykkjarvöru eins og nú er.
    Í fjórða lagi er veittur gjaldfrestur á umbúðagjaldinu með svipuðum hætti og nú er gert við innheimtu gjalda í tolli vegna hráefna í samkeppnisiðnaði.
    Í fimmta lagi er sett inn nýtt ákvæði sem felur í sér heimild til að endurgreiða skilagjald af innfluttum umbúðum fyrir drykkjarvörur sem eru framleiddar hér á landi og eru til útflutnings.
    Í sjötta lagi er tollstjórum gert að senda mánaðarlega yfirlit til Endurvinnslunnar hf. yfir heiti og fjölda umbúða sem innheimt hefur verið skilagjald af.
    Til að standa undir kostnaði af rekstri Endurvinnslunnar hf. er í núgildandi lögum kveðið á um innheimtu sérstakrar umsýsluþóknunar samhliða skilagjaldi. Endurvinnslan hf. fær þessa þóknun í sinn hlut og einnig skilagjald af dósum sem ekki er skilað. Tilgangur umsýsluþóknunar var sá að tryggja að unnt væri að reka þetta kerfi þó svo endurheimtur umbúða yrðu það góðar að afgangur eftir endurgreiðslur til neytenda dygði ekki fyrir þessum rekstarkostnaði. Við mat á þessum atriðum var áætlaður stofn- og rekstrarkostnaður hlutafélagsins, áætluð var sala á einnota umbúðum og það hlutfall sem skilað yrði inn og að síðustu voru svo auðvitað áætlaðar tekjur vegna sölu þessara endurvinnanlegu umbúða.
    Í ljós hefur komið að þessar forsendur stóðust ekki af ýmsum ástæðum, sem ég mun síðar rekja nánar, og á árinu 1990 var tap Endurvinnslunnar hf. töluvert. Því var ekki unnt að greiða t.d. til Náttúruverndarráðs á þessu ári en samkvæmt lögum á félagið að greiða 5% af tekjuafgangi sínum á ári til Náttúruverndarráðs. Með þessu frv. er hins vegar leitast við að leiðrétta ýmis atriði til að tryggja rekstrargrundvöll fyrirtækisins og skapa þessari atvinnugrein betri skilyrði og ná settum markmiðum um raunhæfar ráðstafanir gegn umhverfismengun.
    Í þessu frv. er gert ráð fyrir breytingum á fyrirkomulagi innheimtunnar. Í gildandi lögum er gjald af innfluttum drykkjarvörum í ákveðnum umbúðum innheimt við tollafgreiðslu en gjald af drykkjarvörum framleiddum eða átöppuðum innan lands í sams konar umbúðum er greitt samhliða vörugjaldi. Gert er ráð fyrir að breyta þessu á þann veg að skilagjaldið verði eins og kostur er lagt á umbúðirnar sem slíkar og innheimt í tolli, þó þannig að aðilar sem flytja inn tómar eða hálfunnar skilagjaldsskyldar umbúðir til framleiðslu eða átöppunar hér megi fá sama gjaldfrest á þessum greiðslum að viðbættum virðisaukaskatti og gildir um greiðslu virðisaukaskatts af hráefnum til samkeppnisiðnaðar yfirleitt.
    Í frv. er í öðru lagi gert ráð fyrir möguleika á hækkun umsýsluþóknunar og í undirbúningi að setningu gildandi laga var gert ráð fyrir að heildarsala einnota umbúða næði 65 milljón einingum og að eingöngu væri um að ræða áldósir. Salan árið 1990 var 57,3 millj. eininga af áldósum, stáldósum, plastflöskum og glerflöskum, alls sjö tegundum. Hér er því um að ræða 12% minni sölu.

    Vinna við flokkun og talningu hefur reynst mikil, auk þess sem þessi samsetning umbúðategundanna hefur haft í för með sér meiri kostnað á einingu en ætlað var. Áldósir eru þannig um helmingur af heildarmagninu, plastflöskur og plastdósir um 30%, glerflöskur um 20%. Þetta eykur flutningskostnað þar sem poki af skrapáli rúmar 200 dósir en aðeins 50--60 plastflöskur. Einnig er flutningur á gleri nokkuð erfiður. Flutningskostnaður á hverja umbúðaeiningu getur orðið allt að 3 kr. eða 50% af skilagjaldi.
    Þá er þess að geta að tekjur af sölu skrapáls hafa ekki verið nema brot af þeim tekjum sem áætlað var þar sem skrapvirði áldósa hefur lækkað um 50% frá fyrri hluta árs 1989. Síðast en ekki síst var gengið út frá því að umbúaðskil yrðu um 60% á fyrsta ári og að hlutafélagið færi að tapa ef skilin færu yfir 75%. Á fyrsta heila starfsárinu urðu skilin 74,2% og tap á rekstri félagsins um 11 millj. kr. Þetta fyrirkomulag má segja að sé að því leytinu sérkennilegt að afkoma félagsins reynist því betri sem skilin eru lakari. Kannski er þetta að vissu leyti óeðlilegt en sannleikurinn er sá að ekki hefur enn tekist að búa til virkara kerfi til að koma í veg fyrir umhverfismengun af völdum einnota umbúða. Þetta er a.m.k. reynsla þeirra þjóða sem taldar eru hafa náð bestum árangri í þessum efnum en það eru Hollendingar og Svíar.
    Með stofnun Endurvinnslunnar var stigið merkilegt skref. Það er áreiðanlegt að endurvinnsluiðnaður á eftir að gegna mjög vaxandi hlutverki hér á landi. Endurvinnsla verður mikilvægari í neyslusamfélögum heimsins eftir því sem gengur á auðlindirnar og þar er gengdarlaus sóun eins og við þekkjum af heimsfréttum og héðan úr heimahögum. Menn líta auðvitað til ýmissa átta um hvað megi endurvinna hér á landi. Það er ekki vafi á því að Endurvinnslan hf. og raunar fleiri fyrirtæki geta með vaxandi styrk átt mikinn þátt í því að styrkja þennan þátt iðnþróunar þar sem vaxtarmöguleikar eru án alls efa mjög miklir. Það er þó umhverfisþátturinn sem hlýtur að vera okkur ofarlega í huga þegar fjallað er um þessi mál sem menn auðvitað hafa leitt hugann að þegar að því stefndi að farið yrði að selja hér í vaxandi mæli öl og gosdrykki í áldósum. Raunar er auðvelt að vera vitur eftir á og hugsa til þess að kannski hefði það verið skynsamleg leið að fara sem farin hefur verið t.d. í Færeyjum að leyfa aldrei notkun umbúða af þessu tagi. En þetta gerðist ekki mjög snögglega, þetta kom svona hægt og hægt inn á markaðinn hér og auðvitað of seint að bregðast við því núna með algjöru banni. En með þessu fyrirkomulagi, sem nú hefur verið í gildi um nokkurn tíma og í ljós hafa komið ýmsir annmarkar á, hefur tekist að koma í veg fyrir umhverfismengun. Þeir sem fara ekki aðeins um götur í þéttbýli heldur einnig í guðsgrænni náttúrunni sjá það og skynja hver breyting hér hefur orðið á. Endurvinnslan hf. hefur ekki aðeins tekið við umbúðum úr áli heldur einnig plasti og gleri. Ástandið í þessum efnum hefur sem sé batnað mjög verulega og er reynslan af tilkomu þessara laga í heild góð enda þótt nauðsynlegt sé að bæta úr þeim annmörkum sem í ljós hafa komið, m.a. vegna þess að þegar verið var að gera rekstraráætlanir og búa til forsendur fyrir þessum rekstri þá renndu menn blint í sjóinn. Aðstæður í raunveruleikanum hafa að mörgu leyti reynst aðrar en menn ætluðu og því er nauðsynlegt að aðlaga þetta þeim veruleika sem við búum við.
    Ég legg til að lokum, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. umhvn.