Jarðhitaréttindi

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 18:11:00 (1085)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vildi í upphafi skýra það að ég gat ekki verið viðstaddur upphaf þessarar umræðu, en það var vegna þess að ég var á fundi með þingmönnum Norðurl. e. um Mývatnssvæðið og fleira sem því tengist en kom svo skjótt sem mér var kostur til þess að taka þátt í umræðunni.
    Vegna þeirrar spurningar, sem hv. 4. þm. Austurl. og 1. flm. frv. beindi til mín þá vildi ég taka það fram eins og fram hefur komið, bæði í frumvarpaskrá þeirri sem fylgdi stefnuræðu forsrh. og í stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar um velferð á varanlegum grunni, að ríkisstjórnin hefur í hyggju að flytja frv. um eignarhald á orkulindum og almenningum og verðmætum jarðefnum í iðrum jarðar. Og einnig annað frv. um mörk milli einkaeignarlanda og almenninga. Hvortveggja löggjöfin tel ég að sé mjög mikilvæg. Ég hygg að það sé rétt sem fram kom hjá hv. 4. þm. Austurl. að margt í því frv. sem hann mælir hér fyrir og þeim hugmyndum sem nú er unnið að á vegum ríkisstjórnarinnar geti

fallið saman. Ég vil þess vegna láta í ljós þá von að takast megi gott samstarf við iðnn. þingsins í þessu máli.
    Um frv. sem hér er til umræðu um jarðhitaréttindi vildi ég fyrst og fremst segja það að ég tel heppilegra að stefnt verði að almennari löggjöf um málið fremur en um jarðhitaréttindin ein af ástæðum sem tilgreindar voru í bréfi sem iðnn. Alþingis var skrifað í fyrra og hv. þm. hefur ásamt meðflm. sínum gert okkur í iðnrn. þann greiða að prenta sem fylgiskjal með þessu frv. Þar kemur fram sú skoðun að það sé heppilegt að lögin taki til fleiri verðmæta en jarðhitans eins. Eins og fram kom hjá hv. 4. þm. Austurl. er þetta mál sem lengi hefur dregist að leyst verði.
    Það er enn rétt sem vitnað er til ummæla dr. Bjarna Benediktssonar í grg. með frv. sem hann flutti 1945 að löggjöf af þessu tagi sé þegar um djúpjarðhita er að ræða eðlileg almenn takmörkun eignarréttar sem heimil væri án bóta. Það er einmitt þessi kjarnasetning sem þarf að gera skýra og skilmerkilega í íslenskri löggjöf, ekki eingöngu vegna eignarréttarsjónarmiða sem menn kynnu að hafa heldur líka til þess að leggja traustan grunn að rannsóknum og hagnýtingu auðlinda lands og landgrunns. Einmitt vegna þess að meðan menn eru ekki vissir um hverjir eiga auðlindina er líka óvissa um það hvort arður fæst af því fé sem fest er í könnun áður en að nýtingu kemur.
    Enn er svo að nefna til sögunnar það sem hv. 4. þm. Austurl. líka nefndi að þetta kynni að snerta skipti okkar við aðrar þjóðir og alþjóðasamninga, m.a. hið Evrópska efnahagssvæði, þar sem heppilegast er að sem allra skýrust ákvæði séu í íslenskum lögum um það hverjir fari með forræði fyrir landi og auðlindum.