Jarðhitaréttindi

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 18:15:00 (1086)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Ég þakka hæstv. iðnrh. undirtektir hans og upplýsingar sem fram komu í máli hans. Ég tók eftir því að ráðherrann tók svo til orða að ríkisstjórnin hefði í hyggju að flytja tvö frv. sem tengjast almannarétti og eignarrétti á orkulindum og landi. Ég hafði vænst þess að heyra ráðherrann taka fastar til orða um þetta efni, að þetta mál væri lengra komið af hans hálfu nema samstaða sé um að byggja í meginatriðum á þeim tillögum sem hæstv. ráðherra lagði til iðnn. á síðasta þingi. Ég kem að þessu nú vegna þess að ég held að við þurfum að reyna að hraða þessari vinnu eftir því sem frekast er kostur. Við sáum hvað gerðist á síðasta þingi, sem var að vísu óvenjustutt, að þrátt fyrir góðan vilja í þingnefnd til að vinna að málinu tókst ekki að leiða það til lykta. Ég tel afar þýðingarmikið að þau sjónarmið sem ríkisstjórnin kann að hafa um þetta efni í formi frv. eða samvinnu við iðnn. um að breyta þessu frv. til þess horfs sem samkomulag gæti tekist um dragist ekki úr hömlu. Ég tel t.d. að vegna væntanlegara umræðna um hinn viðamikla samning um Evrópskt efnahagssvæði, sem ráð er fyrir gert að komi fyrir þingið eftir áramót, hversu lengi sem það kann að tefjast samkvæmt nýjustu fréttum, um það skal ég ekki fullyrða, vilji þeir sem láta sig þau mál skipta, og það eru væntanlega allir hv. alþm., sjá hvernig ráðgert er að ganga frá málum sem tengjast yfirráðarétti yfir auðlindum landsins. Og þar er þetta mál einn af stóru þáttunum.
    Þess vegna leyfi ég mér að spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann geri ráð fyrir því að flutt verði sjálfstætt og sérstakt stjfrv. um málið eða hvort hann muni vilja taka á málinu með iðnn. þingsins í framhaldi af því að þetta frv. kemur til nefndarinnar, og ef um sjálfstæð frv. er að ræða, eins og ráðherrann nefndi og mátti á honum skilja að væri verið að vinna að, hvenær hann geri ráð fyrir að þau berist þinginu.
    Ég vil líka leyfa mér, virðulegur forseti, að nefna mál sem hæstv. iðnrh. hefur komið að í frásögnum. Ég hef lesið blaðaviðtöl við hann um orkusáttmála Evrópu. Hæstv. iðnrh. hefur lýst áhuga sínum á að Íslendingar gerist aðilar að orkusáttmála Evrópu. Ég þekki

svolítið til þess máls og kannski meira eftir að hafa setið ráðstefnu í Ósló nýlega sem efnt var til á vegum Norðurlandaráðs um orkumál. Þar var þessi orkusáttmáli Evrópu, sem Evrópubandalagið hefur beitt sér fyrir, á dagskrá. Í þeim drögum sem ég þekki frá júlímánuði í sumar er að finna ákvæði sem tengjast m.a. aðgangi að orkulindum. Mér sýnist að þau efni þurfi mjög vandlega lögfræðilega athugun einmitt út frá umráða- og yfirráðarétti auðlindarinnar áður en menn skrifa undir þau. Samkvæmt ákvæðum þessa sáttmála, sem vissulega er ekki mjög bindandi lögformlega séð eins og almenni sáttmálinn lítur út, en boðaðir eru fylgisáttmálar í kjölfar þessa almenna sáttmála sem gætu orðið miklu meira ákvarðandi og bindandi fyrir þátttökuaðila. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra í tengslum við þetta mál, sem við ræðum nú, hvar umfjöllun á hans vegum, ráðuneytis hans og ríkisstjórnar, er komin varðandi vinnu og hugsanlega aðild Íslands að orkusáttmála sem kenndur hefur verið við Evrópu.