Þjóðhagsstofnun

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 18:37:00 (1090)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Frv. er stutt og einfalt en engu að síður verð ég að lýsa því yfir að ég hef ekki mótað mér nægjanlega efnislega skoðun á málinu enn. Auðvitað fer fjarri að ég þekki svo vel til málsins eins og flm. sem hafa komið að því tvívegis áður. Ég hef þó kynnt mér þær umsagnir sem liggja fyrir og til hægðarauka fylgja frv. Ég sé að Þjóðhagsstofnun hefur á sínum tíma haft ákveðnar efasemdir um forgang í þessum efnum. Vera má að þau sjónarmið hafi breyst og ég tel eðlilegt að menn skoði það með jákvæðum huga en festist ekki í neinu sérstöku fari í þeim efnum.
    Ég vil líka vekja athygli á með hvaða hætti ég svaraði fyrirspurn hér 14. nóv. sl. varðandi Þjóðhagsstofnun og fyrirhugaðar breytingar á þeirri stofnun sem gæti tengst þessu máli. Ég er ekki að segja að það hafi neina efnislega þýðingu, en þó kom þar fram að áhugi er fyrir því í forsrn. að greina betur sundur starfsemi Þjóðhagsstofnunar þannig að færa megi verkefni sem teljast mættu hefðbundin hagstofuverkefni og hagsýslugerð undir Hagstofu Íslands en beina fremur athygli og elju manna í Þjóðhagsstofnun að spám og efnahagsráðgjöf í ríkara mæli en verið hefur.
    Eins og ég segi þyrfti slík breyting þó, ef að veruleika yrði, ekki að hafa neina efnislega þýðingu fyrir frv. sem slíkt, enda tók flm. fram að flm. gerðu ekki mikið úr því hvaða aðili það væri sem hefði forgöngu um að safna þeim upplýsingum saman sem frv. tekur til. Aðalatriðið væri að það næðist fram.
    Ég vil ekki á þessu stigi hafa fleiri orð um málið en tel sjálfsagt og eðlilegt, sem hlýtur að gerast, að málið fái jákvæða skoðun í þinginu.