Viðlagatrygging Íslands

30. fundur
Miðvikudaginn 20. nóvember 1991, kl. 13:43:00 (1092)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Frv. sem hér er lagt fram var samið að frumkvæði stjórnar Viðlagatryggingar Íslands af sérstakri nefnd, en í nefndinni sátu þeir Arnljótur Björnsson prófessor, Bjarni Þórðarson tryggingastærðfræðingur og Freyr Jóhannesson tæknifræðingur. Fyrrverandi stjórn Viðlagatryggingar Íslands hafði frumkvæði að samningu þess og sendi það síðan til mín með beiðni um að heilbrrh. flytti það. Eftir að stjórnarskipti urðu í Viðlagatryggingu Íslands endursendi ég málið til nýrrar stjórnar Viðlagatryggingar Íslands og spurði hvort nýkjörin stjórn hefði nokkuð við frv. að athuga. Svo var ekki heldur lagði nýkjörin stjórn til að frv. yrði flutt eins og frá því var gengið af fyrri stjórn og þeim Arnljóti Björnssyni, Bjarna Þórðarsyni og Frey Jóhannessyni og er það hér gert.
    Skyldutryggingu gegn eldgosum, jarðskjálftum, skriðuföllum, snjóflóðum og vatnsflóðum, þ.e. viðlagatryggingu, var komið á hér á landi með lögum nr. 52/1975. Þá tók stofnunin Viðlagatrygging Íslands við eignum og skuldum Viðlagasjóðs, en hann var stofnaður vegna eldgossins í Vestmannaeyjum þann 23. jan. árið 1973. Gildissvið laga nr. 52/1975 var takmarkaðra en nú er. Vátryggingarskylda náði þá aðeins til húseigna og lausafjár sem brunatryggt var hjá vátryggingafélagi hér á landi með almennri brunatryggingu eða samsettri vátryggingu.
    Með lögum nr. 55/1982 voru gerðar verulegar breytingar á lögunum nr. 52/1975. Breytingalögin voru felld inn í eldri lögin og þau gefin út svo breytt sem lög nr. 88/1982

og eru þau enn í gildi.
    Aðalnýmælið, sem fólst í lagabreytingum þessum, var það að vátryggingarskylda tók nú til miklu fleiri eigna en áður. Í fyrsta lagi var mælt fyrir um skyldutryggingu á eftirfarandi mannvirkjum, þótt ekki væru þau brunatryggð: hita-, vatns- og skolpveitum, hafnarmannvirkjum, brúm, raforkuvirkjum, síma og öðrum fjarskiptakerfum. Í öðru lagi var kveðið á um skyldutryggingu á ræktuðu landi og lóðum. Einnig má geta þess nýmælis að stjórn stofnunarinnar var heimilað, að fengnu samþykki ráðherra, að ákveða að stofnunin tæki að sér viðlagatryggingar á munum sem ekki var skylt að viðlagatryggja. Þessi heimild hefur þó aldrei verið notuð.
    Helstu nýmæli sem felast í frv. eru þessi:
    1. Hita-, vatns- og skolpveitur og hafnarmannvirki í einkaeign verður ekki lengur skylt að vátryggja, en eigendur þeirra eiga kost á að vátryggja veitu- og hafnarmannvirki hjá Viðlagatryggingu Íslands ef þeir svo kjósa. Það er sem sé lagt í vald þeirra sjálfra hvort þeir taka slíka tryggingu.
    2. Ekki verður skylt að vátryggja brýr sem eru styttri en 50 metrar. Hins vegar eiga eigendur brúa sem eru 10--50 metra langar kost á að kaupa viðlagatryggingu á þær ef þeir sjálfir kjósa.
    3. Skyldutrygging á raforkuvirkjum, síma og öðrum fjarskiptamannvirkjum verður afnumin. Hér skiptir ekki máli hvort slíkir munir eru í eigu einstaklinga eða hins opinbera. Eigendur, hvort sem um er að ræða opinberar stofnanir eða einstaklinga, geta hins vegar keypt viðlagatryggingu á þessa muni ef þeir sjálfir óska þess.
    4. Ræktað land og lóðir verður frjálst að vátryggja og er því vátryggingarskylda vegna þeirra afnumin.
    5. Heimilt verður að vátryggja ýmsa muni sem hingað til hafa ekki verið viðlagatryggðir.
    6. Settar eru nýjar reglur sem leiða til breytingar iðgjalda af skyldutryggingum.
    7. Heildargreiðsluskylda viðlagatryggingar er aukin verulega, sbr. 1. mgr. 18. gr. frv.
    8. Fellt er niður ákvæði um ábyrgð ríkissjóðs á þeim hluta tjóns sem er umfram 2‰ af samanlögðum vátryggingarfjárhæðum í upphafi hvers árs, sbr. 1. mgr. 18. gr. núgildandi laga.
    9. Tekin eru upp nýmæli í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun á viðlagatryggingu, sbr. 7. og 8. gr. frv.
  10. Sett er almenn regla um vátryggingarstað og um ábyrgð viðlagatryggingar vegna skemmda á munum sem eru til bráðabirgða utan vátryggingarstaðar, sbr. 14. gr. frv.
  11. Felld eru niður sérákvæði um hamfaranefnd og uppgjörsnefnd, en þær hafa í reynd lítið nýst. Þess í stað er gert ráð fyrir að farið verði eftir almennum réttarfarsreglum, svo sem gert er í öðrum greinum vátrygginga.
    Auk þess sem hér hefur verið nefnt hafa ýmis ákvæði verið endursamin að formi eða efni með tilliti til fenginnar reynslu. Þá hefur verið lögð áhersla á að samræma notkun hugtaka og laga hana að annarri löggjöf, einkum þó lögum um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954. Ýmsar breytingar, sem felast í frv., draga úr sérstöðu viðlagatryggingar og færa reglur um hana til samræmis við almennar réttarreglur, ekki síst reglur hins almenna vátryggingaréttar.
    Við samningu frv. hefur verið lagt til grundvallar að ný reglugerð verði sett ef frv. verður að lögum. Ákvæði um sum atriði, sem nú eru í reglugerð en eiga betur heima í lögunum sjálfum, eru tekin upp í frv. Einnig er í frv. gert ráð fyrir að í reglugerð verði settar reglur til skýringar og fyllingar á ýmsum ákvæðum sem óhentugt eða erfitt er að setja nægilega ítarlega fram í lagatexta. Enn fremur verður að setja ný ákvæði í reglugerð vegna

fyrirhugaðra breytinga annars vegar á reglum laganna um hvaða muni skylt er að vátryggja og hins vegar reglum um hvaða muni heimilt er að vátryggja.
    Viðlagatrygging Íslands hefur nú starfað í rúman hálfan annan áratug. Að fenginni reynslu þykir sýnt að nauðsynlegt er að breyta á ýmsan hátt reglum um þessa sérstöku grein vátrygginga.
    Í frv. er þó ekki lagt til að gerðar verði róttækar breytingar á viðlagatryggingunni. Haldið er þeirri stefnu að eigendum nánar tiltekinna flokka eigna skuli vera lögskylt að hafa þær viðlagatryggðar. Hins vegar eru tilteknir flokkar muna felldir undan skyldutryggingu. Er það í samræmi við þá meginstefnu að hver og einn skuli ráða því hvort hann kaupir vátryggingu á eignum sínum og ekki beri að lögbjóða vátryggingu nema þegar sérstök veigamikil þjóðfélagsleg rök eru til þess.
    Ekki þykir nú frekar en áður rétt að fjölga áhættum þeim sem viðlagatrygging tekur til. Öðru hverju hefur borið á góma að rétt væri að lögbjóða fok- eða óveðurstryggingu á húsum og jafnvel einnig á lausafé. Um þetta efni var fjallað bæði áður en fyrstu lögin um viðlagatryggingu voru sett og eins þegar þeim var breytt nokkrum árum síðar. Nefnd sú, sem samdi upphaflegu lögin, segir svo í athugasemdum með lagafrv. frá 1975, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur ekki talið rétt, að tryggingin taki til tjóna af völdum ofviðra. Væru slík tjón bótaskyld, mundi það fjölga mjög bótaskyldum atburðum og auka umsvif stofnunarinnar, auk þess sem erfitt er að skilgreina hugtakið ofviðri. Auk þess má benda á að foktryggingar eru orðnar allalgengar.``
    Í frv. til laga um breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands frá 1982 er aftur fjallað um þetta mál og segir m.a. svo, með leyfi forseta:
    ,,Komið hefir í ljós í þau skipti, sem meiriháttar ofviðri hafa gengið yfir einstaka landshluta, að þeir eru ávallt margir, sem ekki hafa hagnýtt sér þá tryggingavernd, sem fáanleg er hjá tryggingarfélögum gegn slíku tjóni. Menn hafa í mörg ár, a.m.k. frá 1960, átt þess kost að kaupa sérstaka foktryggingu, auk þess heimilistryggingu og húseigendatryggingu, en allar þessar tryggingar bæta tjón af völdum óveðurs. Nefndarmenn telja æskilegast, að hinn almenni vátryggingarmarkaður annist þessar tryggingar. Einkum þegar þess er gætt, að þótt um geti verið að ræða mörg minniháttar tjón í sama veðrinu, er það undantekning að um sé að ræða s.n. ,,katastrofutjón``, þ.e. tjón af þeirri stærðargráðu, sem Viðlagatryggingin er fyrst og fremst stofnuð til að mæta.``
    Telja má að þessi rök séu enn góð og gild. Því má bæta við að síðan hin tilvitnuðu orð voru rituð hafa tækifæri til að kaupa vátryggingu gegn óveðri aukist að mun. Má t.d. nefna að slík vátrygging er nú innifaldin í fiskeldistryggingu og húftryggingu (kaskótryggingu) bifreiða og annarra ökutækja.
    Virðulegi forseti, ég hef nú rakið helstu nýmæli frv. til laga um Viðlagatryggingu Íslands. Ég vil leyfa mér að leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og umfjöllunar heilbr.- og trn. Alþingis.