Viðlagatrygging Íslands

30. fundur
Miðvikudaginn 20. nóvember 1991, kl. 14:06:00 (1095)

     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins leyfa mér að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. hvort í tengslum við þetta frv. hafi verið athugaðar skýrslur sem nefnd sú sem skipuð var vegna fárviðrisins sl. vetur skilaði sl. sumar. Hún gerði mjög ítarlega úttekt á því tjóni sem hafði orðið og gerði ákveðnar tillögur um breytingar á tryggingaskyldum sem ég efa ekki að hæstv. ríkisstjórn hefur skoðað í tengslum við þetta mál.
    Eins og allir vita varð tjónið mjög mikið og margir voru með ótryggt og urðu fyrir fjárhagstjóni sem ýmsir hafa vart risið undir svo að ég vildi gjarnan fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hvort þetta hafi ekki verið vandlega skoðað og tekið til greina þegar ákveðið var að flytja þetta frv.