Viðlagatrygging Íslands

30. fundur
Miðvikudaginn 20. nóvember 1991, kl. 14:46:00 (1101)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að samgleðjast hæstv. heilbr.- og trmrh. með að það skuli fara fram umræða um þetta mál. Það ber nýrra við, satt að segja, vegna þess að mál af þessu tagi hafa oft og tíðum fengið mjög litla umræðu á hv. Alþingi. Ég man mjög vel eftir því þegar ég flutti frv. að þeim lögum, sem nú eru í gildi, 1981 eða 1982, að þá urðu hverfandi umræður um málið hér á Alþingi. Það er iðulega svo að þegar málaflokkar af þessu tagi koma hér inn treysta menn sér ekki í miklar umræður og það er slæmt, bæði fyrir málið og þá sérstaklega fyrir ráðherrann sem á að halda á málinu.
    Ég vildi aðeins koma að þeim atriðum sem hér hafa verið nefnd og fram komu í máli hæstv. ráðherra. Það var eins og það væri eitthvert innlegg í málið að það hefði verið undirbúið í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og fulltrúar allra flokka eða flestra ættu mann í stjórn Viðlagatryggingar Íslands --- og þess vegna ættu menn kannski ekki að vera með neitt röfl var undirskilið. Auðvitað er það þannig að við sem þingmenn hljótum að áskilja okkur allan rétt til að fjalla um málin eftir því sem þörf krefur og staðreyndin er sú, eins og allir vita, að þótt flokkarnir setji menn í stjórnir, ráð eða nefndir af þessu tagi, þá eru fulltrúar flokkanna ekki að bera endilega alla hluti undir þingflokkana, t.d. þegar lent er tillögum um breytingar á lögum af þessum toga, enda yrði lítið gert á þingflokksfundum satt að segja annað en fjalla um svoleiðis mál. Auðvitað er málið með þeim hætti jafnvel þó að það hafi verið undirbúið í tíð síðustu ríkisstjórnar að segja má að allir sem hér eru í salnum, aðrir en hæstv. heilbrrh., komi í raun nýir að málinu eins og það lítur út og þess vegna hljótum við að fjalla um málið nákvæmlega eins og það liggur fyrir.
    Sömuleiðis tel ég að það sé algerlega óeðlilegt að leggja mál af þessu tagi fyrir öðruvísi en því fylgi talnalegar upplýsingar. Mér er alveg sama þó að einhverjum ársskýrslum Viðlagatryggingar Íslands sé dreift hér af og til og menn geti svo sem fengið þær úti á bókasafni. Þetta þarf að vera í þingskjalinu þannig að menn geti áttað sig á því um hvað verið er að fjalla nákvæmlega á þeim stað og þeirri stundu þegar verið er að ræða

um málið. Ég tel þetta mistök í ráðuneytinu og ráðherrann á bara að viðurkenna það að þetta séu mistök og hann átti að láta okkur hafa tölur og upplýsingar um þetta mál. Þetta er orðin nokkuð rík stofnun og ég held að sumir þingmenn hefðu gaman af að sjá hvað hún er orðin rík, að þessi þjóð getur þrátt fyrir allt stundum safnað í sjóði, hefur stundum lagni, þroska og vitsmuni til að leggja fyrir í sjóði til mögru áranna. ( Gripið fram í: Þegar þeir eru skyldaðir til þess.) Þegar þeir eru skyldaðir til þess, já.
    Hv. 5. þm. Vestf. nefndi þann möguleika að þessi starfsemi yrði að einhverju leyti flutt út á land. Ég vil þakka honum fyrir þá ábendingu og segja að þetta er auðvitað sjónarmið sem við eigum alltaf að ræða. Í hvert einasta skipti sem fjallað er um opinbera stofnun hér af hvaða tagi sem hún er þá á að spyrja: Gæti þessi starfsemi flust út á land? Það á að nálgast hlutina þannig. Þó það sé skoðun hinnar nýju kynslóðar í Sjálfstfl. að það sé best fyrir alla, bæði þroska og vitsmuni einstaklinganna og þjóðarinnar, að allt sé í Reykjavík, eins og fram hefur komið hjá hinum mikla leiðtoga Sveini Andra Sveinssyni, þá er ekki þar með sagt að við hin sem sitjum t.d. á Alþingi séum þeirrar skoðunar. Ég tel það ekki sáluhjálparatriði fyrir þjóðina að allt sé í Reykjavík þó ég sé þingmaður Reykvíkinga og hafi verið það í 12, 13 ár. Þess vegna tel ég að þessi ábending hv. 5. þm. Vestf. eigi fyllilega rétt á sér þegar verið er að ræða þessa opinberu stofnun.
    Það er líka alveg rétt hjá honum að við sem höfum starfað hér um skeið erum að mörgu leyti föst í vanahugsun. Menn hafa vanist á þá formúlu sem stendur fremst í öllum lögum um opinberar stofnanir: Heimili hennar og varnarþing er í Reykjavík. Þetta þarf ekkert að vera svona. Þetta er ávani. Og á síðari árum þegar fjarskipti verða auðveldari og auðveldari og samgöngur auðveldari og auðveldari þá er þetta auðvitað vitlausara og vitlausara. Menn eiga að spyrja sig þessarar spurningar, sérstaklega þegar verið er að endurskoða lög í heild eða setja á stofn nýjar stofnanir: Getum við komið henni annað? Það á að byrja á því en ekki byrja á að slá því föstu að hún verði sett niður í Reykjavík því að það er talsvert til af opinberum stofnum hér.
    Varðandi önnur atriði sem hafa komið fram þá vil ég aðeins víkja að því sem fram kom hjá hv. 2. þm. Vestf. og hv. 2. þm. Norðurl. v. um óveðurstjónin. Ég tek undir það með þeim að mér finnst sjálfsagt að það mál verði þrautskoðað. Það hefur oft verið skoðað en menn þurfa iðulega að fara í gegnum sömu hlutina aftur og aftur og allir að sannreyna veruleikann á sjálfum sér og það er a.m.k. alþingismönnum skylt að reyna. Þetta var mjög rækilega skoðað árið 1974--1975 af mjög vönduðum vinnuhópi og á Alþingi líka. Þetta var mjög rækilega skoðað á árunum 1980--1982 og ég er sannfærður um að þetta hefur verið mjög rækilega skoðað núna líka. En ekkert af þessu eru rök fyrir því að mínu mati að þingnefndin eigi ekki að fjalla um þetta. Hún á auðvitað að skoða þetta vandlega líka.
    En hver eru rökin sem menn hafa haft? Af hverju eru óveðurstjónin ekki inni í þessu? Þau eru fyrst og fremst þau að það er svo erfitt að draga mörkin, erfitt að finna markalínuna. Það er sagt sem svo, bæði í nál. frá 1974--1975 og 1980--1982, að ef óveðurstjón væru tekin inn í þetta, t.d. eins og þau óveðurstjón sem við munum kannski eftir frá allra síðustu árum, þá yrðu umsvif þessarar stofnunar svo mikil að mönnum mundi mjög fljótlega blöskra. Ég man a.m.k. eftir ræðum frá hv. 2. þm. Norðurl. v. um að þessi stofnun væri þegar orðin nokkuð umsvifamikil. Það voru voru einfaldlega rökin að það væri svo erfitt að draga markalínurnar í þessu efni.
    Hins vegar tel ég að það eigi að skoða málið eins og þingmennirnir sögðu en verð að segja alveg eins og er að ég vísa algerlega á bug þeirri röksemdafærslu þeirra beggja að það eigi að skoða þetta af því að á sumum svæðum verði aldrei eldgos og jarðskjálftar og þau fái þar af leiðandi aldrei peninga úr sjóði sem þeir borga í. Þetta eru rök sem

ég vísa á bug. Vegna þess að stofnun eins og þessi er samhjálparstofnun. Og hún byggist á því að allir greiði í hana hvort sem þeir verða beint fyrir tjóninu sjálfir eða ekki.
    Það er líka þannig, virðulegi forseti, að ef tjón verður af völdum náttúruhamfara, t.d. á virkjunum eða raflínum, þá mun það koma niður á allri þjóðinni með beinum eða óbeinum hætti. Þessi samhjálparhugsun er grundvallaratriði í öllum tryggingafélögum og allri tryggingastarfsemi og hefur verið það á Íslandi frá því í Grágás þegar menn skrifuðu tiltekin tryggingarákvæði inn í lögbækur Íslendinga. Jafnvel í mjög frumstæðum nútímatryggingarfélögum eins og Kýr, Tryggingafélagi Ljósavatnshrepps, sem er eitt fyrsta tryggingafélag sem stofnað var á Íslandi, kemur þessi samhjálparhugsun fram. Þar borguðu allir til félagsins jafnvel án þess að geta nokkurn tímann gert sér vonir um að þeirra kýr yrðu fyrir tjóni af því að þeir áttu engar. ( Gripið fram í: Þeir höfðu vonir um að eignast þær.) Það var svo aftur annað mál. Það var löngu áður en núv. ríkisstjórn tók við.
    Varðandi málið að öðru leyti, virðulegi forseti, fannst mér mjög mikilvægt að það kom fram hjá hæstv. heilbrrh. að hann telur rétt að nefndin skoði sérstaklega sandfokið í þessu sambandi. Sömuleiðis skildi ég hann þannig að hann teldi rétt að nefndin athugaði tjónaskýrslurnar frá í vetur og skoðaði að hve miklu leyti það gæti rímað við hlutverk þessarar stofnunar. Ég tel mikilvægt að fá það hér til umræðu.
    Ég ætla ekki að fara að karpa við hæstv. ráðherra um einstök efnisatriði þessa frv. að öðru leyti. Ég held að það breyti í raun og veru mjög litlu. Það er best að skoða málið vandlega efnislega.
    Að lokum vil ég segja það að mjög mikið hefur borið á því á síðustu árum í sambandi við Viðlagatryggingu Íslands að þegar tjón hafa orðið hafa menn litið á hana sem sjóð. Menn hafa litið á viðlagatrygginguna sem sjóð rétt eins og Bjargráðasjóð eða aðra slíka sjóði. Viðlagatrygging er ekki sjóður með sama hætti og t.d. Bjargráðasjóður var. Viðlagatryggingin er trygging sem byggist á iðgjöldum og hefur tilteknar skyldur þar sem menn kaupa sér réttindi með því að kaupa iðgjöld. Ég held að menn þurfi að átta sig mjög vel á því að ef þeir vilja ganga lengra með viðlagatrygginguna og segja sem svo að hún eigi að borga þessi og hin tjónin, jafnvel burt séð frá því hvernig háttar til með stöðuna að öðru leyti með iðgjöld, þá held ég að menn séu komnir inn í annað hlutverk með þessa stofnun en nú er.
    Hins vegar dreg ég ekki úr því að það getur verið þörf fyrir stofnun með annað hlutverk og víðtækara en viðlagatryggingin er. Ég held t.d. að sú hugsun sem var á bak við Bjargráðasjóðinn á sínum tíma eigi rétt á sér. En þetta er tvenns konar starfsemi og að mörgu leyti mjög ólík. Spurningin er auðvitað um það hvort óveðursbætur ættu ekki öllu heldur að vera hluti af starfsemi Bjargráðasjóðs vegna þess að tryggingafræðilega virðist vera svo erfitt að draga mörkin. Að vísu er Bjargráðasjóður sagður dauður eins og er. Hann hefur lengi verið dauður en það er hægt að endurvekja þá hugsun sem á bak við hann var. Og ég skil vel þá þörf sem birtist í þessu máli, m.a. í ræðum þeirra hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar og Pálma Jónssonar. Ég endurtek það að ég tel að hér sé mikilsvert mál á ferðinni sem nauðsynlegt er að skoða mjög vandlega og ég held að hæstv. heilbrh. geti verið ánægður með að hafa fengið umræður um málið.
    Að allra síðustu þetta, virðulegi forseti. Ég man eftir því sem meginrökum í sambandi við óveðurstrygginguna að menn töldu mjög erfitt að finna endurtryggingarvernd fyrir hana. Fyrir utan það að draga mörkin voru þetta þau faglegu og efnislegu rök sem menn lögðu fyrir. Menn sögðu sem svo: Það er ekki hægt að fá neina endurtryggingarvernd fyrir það veður sem hugsanlega verður á Íslandi. Ég man eftir að þetta réði úrslitum fyrir allmörgum árum.