Viðlagatrygging Íslands

30. fundur
Miðvikudaginn 20. nóvember 1991, kl. 15:04:00 (1103)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Í 1. gr. frv. er það tekið fram að hlutverk stofnunar Viðlagatryggingar Íslands sé að vátryggja gegn tjóni af völdum náttúruhamfara. Svo eru hér fluttar um það langar tölur að ekki sé hægt að baktryggja sig gegn ákveðnum tegundum af náttúruhamförum. Þegar þeirri ræðu er nokkuð vel fram haldið gagnvart því að það sé ekki hægt að baktryggja sig gagnvart fárviðri þá er kúvent og sagt að það sé vel hugsanlegt að taka sandfok inn. ( Heilbrrh.: Það er hægt að tryggja sig gegn fárviðri, það er gert í dag. Þetta er allt misskilningur hjá hv. þm.) Það var verið að tala um það hér áðan. ( Heilbrrh.: Ég held að sandurinn hafi fokið eitthvert, annars staðar en á sandsteppum Íslands.) ( Forseti: Ég verð að biðja hæstv. heilbrrh. að sýna góða reglu hér á fundi.) ( Heilbrrh.: Sjálfsagt.) Nú er viðureign hæstv. forseta og heilbrrh. lokið með sáttum þannig að nú verður fram haldið málinu.
    Það kom fram að menn hefðu ekki getað fengið baktryggingar fyrir því ef þeir t.d. létu Viðlagatryggingu Íslands taka það upp að tryggja fyrir foki. Vænti ég að hæstv. heilbrrh. taki nú rétt eftir. Aftur á móti kom fram hjá heilbrrh. mjög ákveðið að mönnum væri ekkert of gott að kaupa sér tryggingar fyrir foki því það væru frjálsar tryggingar. Þeir ættu sem sagt að borga tryggingariðgjaldið til viðlagatryggingar þó þeir fengju aldrei krónu þaðan til baka og svo ættu þeir líka að kaupa sér frjálsa tryggingu fyrir foki, þeirri einu hættu sem þeir hugsanlega gætu setið uppi með.
    Nú er rétt að víkja að Kleifum í Gilsfirði því þar mun hæstv. heilbrrh. þekkja til. Það vill svo til að bæjarstæðið er valið nokkuð skynsamlega. Það er valið upp á háum hól. Það stendur það langt frá hlíðum fjallanna að ekki er hætta á snjóflóði eða skriðum, ekki er talin nokkur hætta á að eldgos eða jarðskjálftar muni granda og sjór mun varla ganga svo á land að það fari upp á bæjarstæðið. En svo eru gróin fjöll vestra að sandfok mun ekki heldur skaða bæinn. Aftur á móti er staðreynd að vegna þess að fjörðurinn er eins og trekt í laginu þá geta orðið nokkuð mikil veður á þessum stað og það er stutt yfir í Húnaflóann, þannig að hnjúkaþeyr getur orðið mikill. Ég nefni þetta sem dæmi vegna þess að það má ganga út frá því sem vísu að sá sem á slíkum stað býr er fyrst og fremst að borga iðgjald. Hann er fyrst og fremst að borga iðgjald. Hann mun aldrei fá bætur. Við erum aftur á móti stödd í húsi sem eldgos gæti grandað, jarðskjálfti gæti sett um koll og sjór gæti gengið á land og fyllt í það minnsta kjallarann. Þess vegna liggur ljóst fyrir að viðlagatrygging sér vel um þetta hús, það stendur lágt, nokkuð varið af stórum byggingum þannig að það er ekki sennilegt að fárviðri verði til þess að feykja því um koll --- og nú hefur hæstv. heilbrrh. tekið gleði sína og sér að hér er allt í öruggum höndum. En engu að síður er nauðsyn að greina á milli, það sem ég vil kalla tryggingariðgjöld þar sem menn gera ráð fyrir því að fá tjónabætur fyrir, greiðslu á tryggingariðgjöldum, eins og er grunnurinn að viðlagatryggingu og því ,,kýr``-tryggingarfélagi sem hæstv. fyrrv. heilbrrh. hafði hér orð á áðan og sagði að menn hefðu greitt til hvort sem þeir áttu kýr eða ekki. Það er samhjálparfélag. Vissulega voru tryggingarnar í Grágás og þau ákvæði sem hrepparnir stóðu að varðandi tryggingar mjög merkt fyrirbrigði. Þar átti aldrei, ef ég man rétt það sem mér var kennt á Hvanneyri forðum, að bæta mönnum búskap þrisvar. Ef menn stóðu þannig að

að skepnur féllu hjá þeim þrisvar, þá fengu þeir ekki bætur í þriðja skipti. Þeir fengu þær tvívegis.
    Margt var í þeim tryggingarlögum á þann veg að þeir ætluðu mönnum einhverja sjálfsáhættu líka til þess að tryggja að menn reyndu að gæta eigna sinna og létu ekki allt fara lönd og leið.
    Mér finnst aftur á móti að þessi hugsun, sem hér er sett fram, sé slíkt vandamál við að eiga, ef viðlagatrygging eigi að standa að bótum vegna náttúruhamfara þegar um fok er að ræða sé það ekki hægt en það sé einfalt mál ef venjuleg tryggingafélög eiga hlut að máli. Mér sýnist að um sömu vandkvæðin hljóti að vera í báðum tilfellum. Það hlýtur að vera jafnerfitt fyrir sjálfstætt tryggingafélag að meta hvenær á að bæta tjón og fyrir viðlagatryggingu að gera það. Vafalaust mundu menn setja ákvæði um einhverja lágmarksveðurhæð, þannig að ef menn væru að stilla upp fyrir húsi og það mundi vera svo illa að verki staðið að það færi allt um koll við tiltölulega litla veðurhæð yrðu ekki greiddar bætur. En ef veðurhæð er yfir einhverjum ákveðnum mörkum yrðu greiddar bætur.
    Ég get ekki fellt mig við þá hugsun sem kemur fram að líta á það sem sjálfgefinn hlut að ákveðin svæði landsins eigi bara að vera greiðendur í þetta kerfi en eigi aldrei að fá krónu til baka. Mér finnst þá eðlilegt að brjóta trygginguna upp, miða hana við hina fornu fjórðunga og láta greiða í viðlagatryggingu á þeim svæðum og hvert svæði hafi sínar reglur um eftir hverju farið er, hvað þeir greiða til baka.
    Mér er aftur á móti ærið umhugsunarefni að í undirbúningi að þessu frumvarpi, sem hér liggur fyrir, er greinilegt, þrátt fyrir að þar hafi verið fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum, að þannig hefur verið að verki staðið og þannig hefur nefndin verið skipuð að hún hefur ekki haft til að bera víðsýni til að taka afstöðu með því að þegar fárviðri geysar eins og gerðist sl. vetur sé eðlilegt að líta á það sem náttúruhamfarir, þegar hús, sem hafa staðið um langan tíma, skekkjast á grunni vegna þess að sterkviðrið er slíkt. Mér finnst óneitanlega skjóta dálítið skökku við ef mönnum finnst að þeir, sem eiga hús ofan í lautum og kvosum, eigi að hafa það öryggi fram yfir hina alla sem hafa byggt þau uppi á hæðum, að það eigi að hafa skatt sem er þannig útbúinn að það verði millifærsla þarna á milli.
    Ég get vel trúað því að þeir, sem sitja í náðugum sætum í Seðlabanka Íslands og vilja helst lítið þurfa að vinna fyrir þennan sjóð annað en að ná inn peningunum, ganga frá ársreikningi og hafa svo góðan gleðskap þegar það fer fram, vilji helst ekki þurfa að standa frammi fyrir þeim vandamálum að hafa einhver óljós matsatriði. Það getur vel verið að við stöndum frammi fyrir því að við fáum ekki nothæft tryggingakerfi með því að þetta frv. verði að lögum, að við fáum tryggingakerfi sem er ætlað fyrir suma en ekki fyrir alla þegar um náttúruhamfarir er að ræða.
    Ég fyrir mína parta hef lýst því yfir að undir þeim kringumstæðum get ég ekki staðið að því að styðja þetta lagafrv. og breytir engu hversu víðtækur sá bakgrunnur er sem notaður hefur verið til að semja það.