Virkjun Skaftár og Hverfisfljóts

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 10:40:00 (1112)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Vegna þess sem fram kom hjá hv. 4. þm. Austurl. og hv. fyrirspyrjanda, 2. þm. Suðurl. um hugsanleg umhverfisáhrif nýtingar vatnsorkunnar á þessu svæði vil ég vekja athygli á því sem ég sagði áðan að þær rannsóknir og áætlanagerð sem nú er uppi er óbundin af fyrri hugmyndum um að veita Skaftá og fleiri ám til Tungnaár sem ég þykist vita að hv. 4. þm. Austurl. hafi m.a. haft í huga. Að sjálfsögðu eru menn nú miklu betur meðvitaðir um það en þeir voru fyrir árið 1977 að þegar virkjanir eru undirbúnar þarf að leita þeirra lausna sem í senn koma út með lægstan kostnað og best hlífa náttúru landsins. En það er að sjálfsögðu líka hugsanlegt eins og kom fram í máli hv. 2. þm. Suðurl. að virkjun á svæðinu gæti stuðlað að því að landinu væri hlíft á vissum svæðum. Þarna verður ekki hrapað að neinu og það er vissulega rétt athugað hjá hv. 4. þm. Austurl. að umhverfisáhrif virkjanaframkvæmda og virkjanastarfsemi þarf að hafa með alveg frá fyrstu gerð.