Orkuverð frá Landsvirkjun

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 10:45:00 (1114)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vestf. hefur lagt fyrir mig fjórar spurningar. Þeim svara ég á þessa leið:
    Í fyrsta lagi var spurt hversu mikið orkuverð frá Landsvirkjun hafi hækkað frá upphafi árs 1990 til þessa dags. Svarið er að heildsölugjaldskrá Landsvirkjunar hækkaði ekkert árið 1990 en það sem af er ári 1991 hefur gjaldskrárverðið þrívegis verið hækkað um 5% í hvert sinn eða alls um 15,8%.
    Önnur spurning hv. 3. þm. Vestf. var þessi: Hversu mikið hefur innlent verðlag hækkað á sama tíma? Svarið er að vísitala byggingarkostnaðar hefur á þessum tíma hækkað um 18,4%, framfærsluvísitalan um 14,9% og lánskjaravísitalan um 17,3%. Af þessu má sjá að heildsölugjaldskrá Landsvirkjunar hefur ekki haldið fullkomlega í við verðlag.
    Í þriðja lagi var spurt: Hver hefur meðalbreyting gengis orðið á sama tíma? Og svarið er að meðalgengið vegið með inn- og útflutningsvog er óbreytt frá því í ársbyrjun 1990.
    Fjórða spurning hv. fyrirspyrjanda var sú hvort reynt hefði verið að meta hvaða áhrif þróun orkuverðsins hefði haft á lífskjör og hvort hún verði til þess að treysta forsendur nýrra kjarasamninga. Því er til að svara að á undanförnum árum hefur raunverð orkunnar lækkað verulega. Þannig er áætlað að meðalverð á raforku frá Landsvirkjun verði um 44% lægra að raungildi á árinu 1991 en það var árið 1984. Þetta er mikil breyting. Á sama tíma hefur að sjálfsögðu hlutur rafmagnsins í framfærslukostnaði lækkað, en hv. fyrirspyrjandi nefndi einmitt þetta hlutfall. Ég get nefnt að á þessum árum hefur hlutur raforkunnar í framfærsluvísitölunni lækkað úr 2,6% árið 1984 í 1,2% nú. Það liggur í augum uppi að þessi þróun hefur haft jákvæð áhrif á lífskjörin í landinu og ætti a.m.k. ekki að torvelda gerð nýrra kjarasamninga.