Orkuverð frá Landsvirkjun

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 10:51:00 (1117)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það að það sem skiptir máli er sú hækkun sem Landsvirkjun hefur fengið fram á yfirstandandi ári og stefnir í að verði enn meiri á næsta ári samkvæmt yfirlýsingum þeirra. Þetta geta orkufyrirtækin á landsbyggðinni ekki borið þó þau hafi reynt að halda í við þessar hækkanir og látið sumar fara fram hjá sér án þess að taka þær inn í gjaldskrá. Það sem skiptir máli í dag er að orkuverð, t.d. hjá Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitum ríkisins, er tveimur og hálfum sinnum hærra en á öðrum svæðum þar sem það er lægra. Kostnaður heimilanna er tveimur og hálfum sinni hærri en þar sem orkuverðið er lægst. Það skiptir máli. Rafmagnsverðið er allt að helmingi hærra. Þetta get ég fullyrt sjálf því ég rek heimili bæði á Reykjavíkursvæðinu og á Vestfjörðum.