Orkuverð frá Landsvirkjun

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 10:52:00 (1118)

     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :

     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. hans svör sem út af fyrir sig eru upplýsandi í þessari umræðu um orkuverðið sem er, ekki síst á landsbyggðinni, vitaskuld er allt of hátt. Þess vegna er það ásetningurinn að reyna að lækka það til þess að jafna lífskjörin í landinu með þeim hætti. Það er auðvitað útúrsnúningur hjá hv. 9. þm. Reykv. að halda því fram að verið sé að reyna að dylja eitthvað í þessari umræðu. Kjarni málsins er sá að alltaf var gert ráð fyrir því þegar farið yrði út í þessa orkuverðsjöfnun og lækkun orkukostnaðar að Landsvirkjun tæki mjög veigamikinn þátt í þeirri aðgerð. Fyrirspurn mín laut einmitt að því að leiða það fram hvort hlutur Landsvirkjunar hefði legið eftir.
    Eins og ég rakti áðan er auðvitað alltaf afar erfitt í svona samanburði að velja upphafsmiðviðunartímann. Ég kaus að velja ársbyrjun 1990 vegna aðstæðna í kjarasamningum, sem ég rakti hér áðan. Ég hefði út af fyrir sig getað farið aðeins aftar, t.d. til loka septembermánaðar árið 1989 og þá hefði þessi samanburður verið miklu óhagstæðari fyrir Landsvirkjun vegna þess að 1. okt. 1989 hækkaði Landsvirkjun orkuverð sitt að mig minnir um 10%.
    Hins vegar er deginum ljósara að þrátt fyrir það að Landsvirkjun hafi tekist á árinu 1990 að koma í veg fyrir hækkun orkuverðs, þá stefnir í mjög mikið óefni nú, bæði á þessu ári og eins og horfurnar eru á því næsta. Það verður þess vegna að gera skilyrðislausa kröfu til ríkisfulltrúanna í stjórn Landsvirkjunar að hlutur fyrirtækisins í þeim ásetningi núv. stjórnarflokka að lækka orkuverðið á landsbyggðinni liggi ekki eftir.
    Fyrirspurn mín laut einmitt að því að draga fram þessar upplýsingar til að við gætum unnið áfram að þessu mikilsverða máli sem ég vænti að eigi þverpólitískan stuðning á Alþingi. Þetta er eitt af þýðingarmestu málum fyrir lífskjörin í landinu, fyrir almenning, og því verður auðvitað mjög hart fylgt eftir.