Styrking rafdreifikerfis til sveita

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 11:13:00 (1128)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra gat þess að hann mundi leita leiða til þess að koma í veg fyrir það sem niðurskurður og dráttur á að standa við áætlanir í þessum efnum hlýtur að leiða til, þ.e. hækkunar raforkuverðsins til viðskiptavina þeirra sem eiga mest undir. Hann gat hins vegar ekkert um hverjar þessar leiðir væru, hvernig hann ætlaði að brúa þetta bil. Það væri fróðlegt að fá það fram við umræðuna hvað hæstv. ráðherra hefur í huga svo að við búum ekki við óljós orð. En hér eru þau verk stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar, sem tölur vitna til og hafa verið rakin. Það er ekki aðeins yfir 50% niðurskurður á upphæðum til styrkingar dreifikerfa í sveitum heldur er sveitarafvæðingin jafnhliða þurrkuð út, 10 millj. sem voru á síðasta ári standa á núlli í dag. Þetta eru verk ríkisstjórnarinnar. Þetta er ekki bara það að seinka brýnum framkvæmdum, heldur óöryggið fyrir viðskiptavinina sem fylgir ástandi dreifikerfanna í strjálbýli.