Styrking rafdreifikerfis til sveita

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 11:14:00 (1129)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegi forseti. Það sem ég ætlaði að koma að var einmitt þetta sem þeir tveir hv. þm. sem voru að gera athugasemdir nefndu. Til viðbótar má benda á að ef rafveiturnar verða að taka á sig þá hækkun sem leiðir af styrkingu dreifiveitnanna þurfa þær að hækka sína gjaldskrá um 6%. Þá geta menn spurt sig að því líka: Er það eðlilegt að þeir sem kaupa rafmagn á dreifisvæði Rafmagnsveitna ríkisins taki allan kostnað af styrkingu dreifiveitnanna á sig en ekki, eins og hefur verið gert á undanförnum árum, að hann sé tekinn úr sameiginlegum sjóðum? Menn geta spurt sig að því hvort það verði þá ekki niðurstaðan að þetta verði fært á sjálfar sveitarafveiturnar. Ef það verður gert mun það þýða um 17% hækkun á raforkunni hjá þeim. Það er því útilokað að vinna þetta mál öðruvísi en með sameiginlegu átaki. Þess vegna er mjög áhugavert að fá að vita hvaða hugmyndir eru á ferðinni hjá hæstv. iðnrh. um þessi mál.