Styrking rafdreifikerfis til sveita

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 11:18:00 (1131)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem síðasti ræðumaður sagði að vitaskuld verður að gera áætlun um hvernig eigi að styrkja þetta dreifikerfi. Á undanförnum vikum hefur mikið verið rætt um skýrslu Byggðastofnunar og byggðamál í framhaldi af því. Það er eitt stærsta byggðamál fyrir dreifðustu byggðir landsins að þær hafi a.m.k. öruggt rafmagn og eigi það ekki á hættu að það fari út þegar hvessir næst af vestri eða norðri.
    Það hefur komið fram að þetta kostar mikið og er ekki stór upphæð til þessa á fjárlögum næsta árs, en það liggur trúlega líka í því að engin greiðsluáætlun hefur verið gerð. Það er því mjög nauðsynlegt að vinna það verk.