Styrking rafdreifikerfis til sveita

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 11:21:00 (1133)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Fyrst vegna þess sem fram kom hjá hv. 4. þm. Austurl. þar sem hann lét að því liggja að það væri á einhvern hátt óeðlilegt að fjárveiting til sveitarafvæðingar væri ekki í fjárlagafrv. fyrir árið 1992. Sannleikurinn er sá að áætluninni um sveitarafvæðinguna er lokið. Þess vegna er ekki fé veitt til hennar á næsta ári. Um það mál þarf ekki fleira að segja.
    Hitt er rétt að styrking dreifikerfa í sveitum er verkefni sem enn er fengist við. Það er líka rétt, sem kom fram hér hjá hv. 1. þm. Vesturl., að nauðsynlegt er að huga að endurnýjun dreifikerfanna um hinar dreifðu byggðir. Það er mikið verkefni. En ég held að það væri rangt að reikna með því að við leysum þessi mál með áætlunum úr ráðuneytum. Við höfum orkufyrirtækin til þess að fást við þau verkefni.
    Það er heldur ekki rétt að ekki hafi verið gerð áætlun um þessar endurbætur. Hún hefur verið gerð og hún liggur fyrir frá orkuráði. Vandinn í málinu er að taka ákvarðanir um fjárveitingar til framkvæmdanna og um það hvernig haga skuli fjárhag orkufyrirtækjanna sem auðvitað eiga að bera ábyrgð á því að ráðist verði í þær framkvæmdir við þessa styrkingu á dreifikerfunum sem eru þannig vaxnar að ávinningurinn verði meiri en kostnaðurinn, hvort sem sá kostnaður fellur á einkaaðila eða opinbera aðila. Við verðum að gera þá kröfu til þessara framkvæmda að sjálfsögðu að þær svari kostnaði. Síðan er spurningin hver undir honum rís, hvort það eru einkaaðilarnir eingöngu eða með þátttöku

opinberra aðila en heildarmatið verður að vera skipulegt.
    Mér þykir reyndar að nokkur misskilningur hafi komið fram í máli hv. 3. þm. Vesturl. og e.t.v. einnig í máli hv. 1. þm. Vesturl. því að ég sagði alveg skýrt að ég skildi það sjónarmið stjórna Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða að það væri ekki einhlítt mál að leggja þennan kostnað alfarið á þau fyrirtæki sem þjóna hinum dreifðu byggðum og notendurna þar.
    Hins vegar tel ég að við höfum enn ekki fundið endanlega lausn á því, enda varla við því að búast, hvernig við ætlum að jafna þessu niður. Ég tel að sú leið sem hingað til hefur verið farið, að ætla til þess arna sérstakt fé á fjárlögum, hafi ekki tekist vel. Um það eru vitnin algerlega ljós. Hvernig hefur tekist að framkvæma áætlunina frá 1979? Svarið er að það hefur ekki tekist, bæði af því að hún var óraunhæf, af því að þar var verið að stilla upp framkvæmdum sem ekki svöruðu kostnaði, og líka af því að fjárveitingaleiðin er e.t.v. ekki rétta leiðin.
    Ég veit að ég mun eiga samstarf við stjórnir þessara fyrirtækja og við þingmenn um að finna lausn í þessu máli, en að sjálfsögðu verður hún að taka tillit til fjárhagslegra aðstæðna í landinu á hverjum tíma. Fram hjá því verður ekki komist. En það er alveg nauðsynlegt að líta á fleiri leiðir en þær sem við höfum hingað til farið. Ég held að þar megi m.a. benda á verulega skuldayfirtöku ríkisins árið 1989. Ekki síst af því hv. 3. þm. Vesturl. nefndi það að ef þetta væri lagt á fyrirtækin þá yrði að hækka gjaldskrárnar um, mig minnir að hann segði, 17% er athyglisvert að sú yfirtaka sem var ákveðin 1989 kom í veg fyrir 15--17% hækkun á gjaldskránum. Þetta er því ekki jafneinfalt og það sýnist vera.
    Hitt er líka rétt., eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl., að í ýmsum öðrum löndum hefur sú leið verið farin að leggja þennan styrkingarkostnað fyrir dreifiveitur í strjálbýli á orkuvinnslufyrirtækin. Það er ein þeirra leiða sem við þurfum að kanna en ég held að það sé mjög óheppileg leið, sú sem helst hefur hingað til verið farin, að ætlast til þess að þarna komi rekstrarstyrkir árlega. Enda er nú svo komið að í reikningum orkufyrirtækjanna er farið að reikna með afskriftum af þessum kerfum og auðvitað þarf einhvern veginn að finna þessu fjárhagsgrundvöll hjá orkufyrirtækjunum.