Fljótsdalsvirkjun

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 11:29:00 (1137)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. v. spyr um kostnað við hönnun og undirbúning vegna Fljótsdalsvirkjunar. Ég vil gjarnan svara spurningunni með því að skýra frá því að á árunum 1989--1991 hefur verið farið varið eftirgreindum fjárhæðum vegna undirbúnings framkvæmda, hönnunar og rannsókna, vegna Fljótsdalsvirkjunar og þá miða ég fjárhæðirnar við verðlagið í desember 1990: Á árinu 1989 35 millj. kr., á árinu 1990 277 millj. kr. og á árinu 1991 266 millj. kr. Samanlagt eru þetta 578 millj. kr. Samsvarandi tölur vegna Fljótsdalslínu hinnar fyrri eru: Árið 1989 og fyrr 12 millj. kr., 1990 21 millj. kr. og 1991 32 millj. kr. Samtals eru þetta 65 millj. kr. Landsvirkjun hefur afskrifað í reikningum sínum stofnkostnað Fljótsdalsvirkjunar við yfirtökuna frá ríkinu á árinu 1982 og áfallinn rannsóknarkostnað áranna 1983--1989, samtals að fjárhæð 1.253 millj. kr. á verðlagi í desember 1990. Þessi kostnaður vegna fyrri hugmynda um Fljótsdalsvirkjun hefur verið afskrifaður.
    Vinna við hönnun og rannsóknir og undirbúning fyrir Fljótsdalsvirkjun í tengslum við byggingu nýs álvers á Keilisnesi hófst eins og kunnugt er á síðari hluta árs 1989. Á því ári var unnið fyrst og fremst við kortlagningu berggrunns og virkjunartilhögun var þá endurskoðuð í heild. Á árinu 1990 var unnið við rannsóknir á virkjunarsvæðinu fyrir væntanleg útboð sem beindust helst að könnun berglaga á leið aðrennslisganga, stíflugrunni Eyjabakkastíflu, rannsóknum á efnisnámum og kortagerð. Á miðju ári 1990 hófst svo vinna af fullum krafti við hönnun mannvirkja og útboðsgagnagerð. Jafnframt voru sumarið 1990 boðnir út vinnuvegir á Fljótsdalsheiði og unnið við þá fram á haust. Haldið var áfram gerð vinnuvega sumarið 1991 fram í nóvemberbyrjun sl. Það má heita að lokið hafi verið við þá vegagerð sem nauðsynleg var til að geta hafið framkvæmdir af fullum krafti vorið 1992 en útboðsgögn og tilboð verktaka miðuðust við gangsetningu virkjunar í nóvember 1995. Nú hefur eins og kunnugt er orðið nokkur frestur á að upphaf þessara framkvæmda verði með þeim hætti sem þarna var undirbúið.
    Ég ætla hér ekki, virðulegur forseti, að hafa um þetta fleiri orð en tel að með þessu hafi ég svarað fsp. sem fram var borin.