Réttaráhrif tæknifrjóvgunar

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 11:34:00 (1140)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
     Hæstv. forseti. Árið 1985 flutti ég þáltill. um réttaráhrif tæknifrjóvgunar og voru meðflytjendur mínir hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, Davíð Aðalsteinsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Guðrún Agnarsdóttir og Stefán Benediktsson. Tímans vegna ætla ég ekki að lesa tillöguna en þegar hún var flutt höfðu tæknifrjóvganir verið gerðar á Kvennadeild Landspítalans frá árinu 1979. Voru þá þegar 50 íslensk börn getin með þessum hætti. Till. var til komin vegna þess að flm. höfðu áhyggjur af að þessi börn og aðstandendur þeirra hefðu ekki stuðning í lögum ef upp kæmi ágreiningur af einhverju tagi, t.d. við erfðamál, skilnað eða önnur slík tilvik. Till. þessi var samþykkt á vorþingi 1986 og nefnd skipuð, eins og tillagan gerði ráð fyrir, 28. júlí 1986. Í nefndina voru skipuð Ólafur Walter Stefánsson skrifstofustjóri, sem var formaður nefndarinnar, hæstaréttarlögmennirnir Ólafur Axelsson og Þórður S. Gunnarsson, Jón Hilmar Alfreðsson læknir og Ásta K. Ragnarsdóttir námsráðgjafi. Ritari nefndarinnar var Drífa Pálsdóttir, deildarstjóri í dómsmrn. Með nefndinni starfaði einnig Anna G. Björnsdóttir deildarstjóri.
    Á Alþingi 14. des. 1989 var svo samþykkt þáltill. hv. þm. Sigríðar Lillýjar Baldursdóttur um tæknifrjóvganir. Meðflytjendur voru Lára V. Júlíusdóttir, Birgir Ísl. Gunnarsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Guðmundur Ágústsson, Ingi Björn Albertsson og Guðrún Helgadóttir. Þannig hafa allmargir hv. þm. komið nálægt þessum málum. Sú þáltill. var einnig samþykkt og þeirri till. vísað til hinnar sömu nefndar og hafði verið falið að gera drög að lagafrv. um þessi mál.
    Það virðist ekki mikið hafa komið frá þessari nefnd enn þá og 17. des. 1990 innti ég þáv. hæstv. dómsmrh. um hvenær ætlast væri til að nefndin lyki störfum. En í till. minni, sem samþykkt var, var nefndinni gert að ljúka störfum áður en næsta hv. löggjafarþing kæmi saman. Svör hæstv. ráðherra voru að nefndin hefði því miður ekki skilað því verki sem henni var falið en nú yrði gerð bragarbót á og hann mundi hvetja til að nefndin lyki störfum.
    Nefndin hefur því miður ekki lokið störfum enn og ég vil vekja athygli hv. þm. á því að í frv. til barnalaga, sem nú liggur fyrir, er að vísu gerð lítil tilraun til að koma í veg fyrir t.d. vefengingu í þeim tilvikum að eitthvað breytist hjá fólki sem farið hefur í aðgerð af þessu tagi. En ég mun koma að því nánar í umræðu um barnalög að þar held ég að hvergi sé nærri að gert.
    Í stuttu máli. Nefndin hefur ekki enn lokið störfum og ég tel að með tilliti til að nú eru rúmlega 100 íslensk börn getin ýmist með tæknifrjóvgun eins og það var nefnt, þ.e. með sæðisgjöf milli hjóna. Síðan hafa hafist hér glasafrjóvganir, stundum með óþekktum sæðisgjafa þannig að málið hefur enn flækst, ef svo mætti segja þó að ánægjulegt sé að

slík tækni skulu vera fyrir hendi. Ég tel að hér sé alvarlegur skortur á rétti fólks fyrir hendi og hef því leyft mér --- og skal ég ljúka máli mínu, hæstv. forseti --- að spyrja á þskj. 107: ,,Hvað líður starfi nefndar sem skipuð var 28. júlí 1986 til að gera tillögur um réttarstöðu barna, sem getin eru við tæknifrjóvgun, og aðstandenda þeirra?``