Réttaráhrif tæknifrjóvgunar

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 11:41:00 (1143)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
     Hæstv. forseti. Það er vissulega ekki að undra þó að hér verði fjörugar umræður um það vandamál að þjóðin haldi á sér hita. En það ætti ekki að vera minna áhugaefni að réttarstaða lifandi fólks og litlu barnanna okkar, sem eru að fæðast, sé tryggð. En menn virðast nú hafa af því minni áhyggjur eftir þeim umræðum sem hér hafa farið fram. Ég vil í stuttu máli þakka mjög hæstv. dómsmrh. sem augljóslega skilur það sem hér er um að ræða.
    Í íslenskum lögum er það svo að vegna þeirra rúmlega 100 barna, sem getin eru ýmist með tæknifrjóvgun eða síðar svo glasafrjóvgun, að eiginmaður móður, barnið, móðir þess, lögráðamaður barnsins og erfingjar eiginmanns geta höfðað svokallað vefengingarmál og eins og sakir standa trúlega unnið það. Þar með er faðerni barnsins og réttarstaða þess öll gjörsamlega í lausu lofti og móðurinnar raunar einnig. Hið sama mundi að sjálfsögðu gilda ef móðirin færi í vefengingarmál sem ekki er annað að sjá en að hún hlyti að geta auðveldlega unnið. Það má velta því fyrir sér með þau börn sem nú eru við fermingaraldur sem fyrst urðu til á þennan hátt hver staða þeirra væri ef upp kæmi vafamál um

faðerni þeirra, erfðarétt og annað slíkt, sem við kemur réttarstöðu þeirra. Ég tel það skyldu hins háa Alþingis að vinda nú að því bráðan bug að semja lög sem taka til þessara mála.
    Í till. minni á sínum tíma fékkst ég einungis við réttaráhrifin. Hv. þm. Sigríður Lillý Baldursdóttir vék einnig að hinum siðferðislega þætti málsins og félagslega. Ég treysti mér ekki til þess að fara út í þá sálma. En það er mjög flókið mál sem þarf vitaskuld að sinna. Það er svo í okkar flókna heimi að að því kemur að tæknin getur tekið af okkur öll völd og þá kemur að þeim, sem kunna að hugsa betur en við hin, að taka ákvarðanir um hversu langt við eigum að ganga. En þetta er önnur saga. Hér er auðvitað um félagsleg, trúarleg, siðferðileg og fagurfræðileg efni að ræða sem eru mjög flókin. Það þarf því að vanda mjög til þessarar lagagerðar. Ég vil benda hæstv. dómsmrh. á að í barnalögunum, sem nú liggja fyrir hinu háa Alþingi, er talað um tæknifrjóvgun. Mér er t.d. ekki ljóst hvort það tekur til allra þeirra aðferða sem við slík mál má notast. Þegar ég flutti mína till. ræddi ég við Jón Hilmar Alfreðsson sem er okkar helsti sérfræðingur í þessum málum. Þá gerðum við ráð fyrir að um væri að ræða að eiginmaður móður væri sæðisgjafi. Síðan hafa komið til glasafrjóvganir og þetta þarf auðvitað að skilgreina.
    Um þetta mætti auðvitað ræða lengi. Ég skal ekki tefja hæstv. forseta og þakka fyrir að hafa fengið að koma hér fyrr en gert var ráð fyrir samkvæmt dagskrá vegna þess að á eftir er fundur hjá okkur í EFTA-nefnd. En ég vil ítreka þakkir mínar til hæstv. dómsmrh. og trúi því að nú verði unnið að þessu máli í einhverri alvöru.