Alþjóðleg björgunarsveit

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 11:47:00 (1145)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Formleg nefnd mun ekki hafa verið skipuð til að vinna að þessu verki. En viðræður munu hafa farið fram milli utanrrh. og fyrrv. dómsmrh. um það hvernig koma mætti því til framkvæmda og munu embættismenn þessara ráðuneyta og forstjóri Landhelgisgæslunnar hafa verið kallaðir til í því skyni. Sá undirbúningur hefur ekki leitt til að til viðræðna við erlenda aðila yrði stofnað.
    Þannig stóð málið þegar núv. ríkisstjórn tók við völdum. En það var eitt af fyrstu verkum hennar að skipa sérstaka nefnd til að gera heildarúttekt á flugrekstri Landhelgisgæslunnar að því er varðar björgunar- og eftirlitsflug og kanna mögulegt samstarf við aðra björgunaraðila, þar á meðal varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Þáltill. sú, sem hér er spurt um, var lögð fyrir þá nefnd. En eins og kunnugt er skilaði hún skýrslu og bendir m.a. á tvo kosti sem kanna þurfi að því er varðar hugsanlegt samstarf við varnarliðið. Annars vegar að Íslendingar annist þá björgunarþjónustu eða stofnað verði til samstarfs um rekstur björgunarþyrlna. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hefja viðræður við stjórn Bandaríkjanna um þetta viðfangsefni og hefur ráðuneytisstjórum utanrrn. og dómsmrn. verið falið að annast þær viðræður. Að hluta til er um að ræða skylt verkefni, þ.e. alþjóðlegt samstarf um björgunarmál á Norður-Atlantshafi og er þess að vænta að niðurstöður af viðræðum við bandarísk stjórnvöld um þetta efni geti legið fyrir tiltölulega fljótlega.