Alþjóðleg björgunarsveit

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 11:50:00 (1147)

     Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og hv. 14. þm. Reykv. fyrir að leggja þessari umræðu lið. Mér sýnist einhvern veginn á svörunum að þessari tillögu hafi ekki verið fylgt eftir af mikilli alvöru og er ég ekki að undanskilja þá ríkisstjórn sem ég studdi á sínum tíma. En eigi að síður hafa þessi mál verið til umfjöllunar í þeirri nefnd sem fjallaði um flugrekstur Landhelgisgæslunnar og er það í sjálfu sér vel. Að sjálfsögðu hafði ég það í huga þegar ég flutti tillöguna að rætt yrði við þá björgunaraðila sem hér hafa starfað eins og varnarliðið í þessum efnum, en ég hafði miklu víðtækara samstarf í huga. Ég tel að það sé dálítið erfitt að skipa málum þannig til frambúðar að semja við varnarliðið eitt í þessum efnum vegna þess að þar er um hernaðarstarfsemi að ræða sem að sjálfsögðu gengur fyrir hjá þeim. Ég hefði haldið að sú skipan mála að leita eftir alþjóðasamstarfi um björgunarmál væri leið til að komast út úr þeirri sjálfheldu sem þau eru í á Norður-Atlantshafi og það væri leið til að færa þessi mál á borgaralegan grunn.
    Ég hef alltaf litið svo á að um langtímamál væri að ræða og það ætti ekki að blanda þessu inn í skammtímavandamál hér í sambandi við kaup á björgunarþyrlu eða öðru slíku sem við fáumst við í augnablikinu. Ég hef ætíð litið svo á að það væri verið að skipa málum til lengri framtíðar og það ber að skoða málið í ljósi þess. Ég harma að það virðist ekki hafa verið tekið á málinu af mikilli alvöru þó að ég sé í sjálfu sér ekkert að ásaka núv. hæstv. dómsmrh. sérstaklega fyrir það. Ég hygg að hér hafi einhver sjónarmið ráðið um að þetta væri fyrir fram vonlaust verkefni en ég er sannfærður um að svo er ekki.