Jöfnun atkvæðisréttar

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:00:00 (1150)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegur forseti. Það er ósköp eðlilegt að einhver af þingmönnum Sjálfstfl. skuli koma fram með þessa fsp. þar sem hægt er að vitna til hvítbókar um stefnumörkun. Það er sumum mikill þyrnir í augum það sem þeir telja mismunun í vægi atkvæðisréttar. Þegar talað er um jöfnun atkvæðisréttar gleymist þó oft að núgildandi kosningakerfi er sett upp til að virka sem jafnast á milli flokka. Aftur á móti er horft til þess að fyrir fámenn kjördæmi sitji svo og svo margir þingmenn. En ég vil benda þeim sem þannig hugsa á þá staðreynd sem ég nefndi áðan að kerfið var og er hugsað með það fyrir augum að jafna fylgi flokkana þannig að sem jöfnust atkvæðatala sé að baki hvers þingmanns þegar á heildina er litið og þannig eigi Alþingi að spegla vilja þjóðarinnar þegar litið er á atkvæðavægi flokka. Það eru sem sagt hagsmunir heildarinnar sem þarna er verið að ræða um en ekki einstakra kjördæma.
    Í máli flm. kom fram sú mismunun atkvæða sem í dag er að baki hvers þingmanns. Ef litið er á atkvæðatölu að baki þingmanna Kvennalistans kemur í ljós að þar eru 2.600 atkvæði rúmlega en að baki hvers þingmanns Sjálfstfl. eru rúmlega 2.500 atkvæði.