Jöfnun atkvæðisréttar

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:01:00 (1151)

     Gunnlaugur Stefánsson :
     Frú forseti. Sú fsp. sem hér er til umræðu fjallar um sístætt verkefni stjórnmálanna að skipa málum í sambandi við atkvæðisréttinn þannig að sem best jafnvægi sé. Niðurstaðan hefur verið sú að jafnvægi hefur verið allgott í síðustu tvennum kosningum í sambandi við jöfnun á milli flokkanna sem er náttúrlega aðalatriðið. En ég vil vara við því að við séum að hringla mikið með kosningalög. Þau kosningalög sem við bjuggum við fyrir 1987 voru frá 1959 og á þau var komin reynsla og ég held að það sama gildi um þau kosningalög sem í gildi eru núna.
    Fyrst verið er að tala um áhrif og vægi atkvæða í landinu er rétt að skoða líka í þessu sambandi hvaða áhrif það hefur fyrir borgarana að hafa æðstu embættismenn þjóðarinnar meira og minna staðsetta í Reykjavík og stærstu og valdamestu stofnanirnar staðsettar í Reykjavík. Við skulum horfa á þetta mál sérstaklega í sambandi við áhrifin og völdin í víðtæku samhengi í sambandi við kosningalög og kjördæmaskipan.