Jöfnun atkvæðisréttar

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:05:00 (1154)

     Einar K. Guðfinnsson :
     Virðulegi forseti. Mig undrar ekki að þessi fsp. skuli koma fram. Hér er um að ræða gamalt mál sem stöðugt hefur skotið upp kollinum og hefur verið býsna fyrirferðarmikið í umræðum á Alþingi. Að mínu mati var það ásættanleg niðurstaða sem náðist við síðustu endurskoðun kosningalaganna hvað áhrærði vægið milli einstakra kjördæma. Þar var hins vegar verið að reyna að glíma við tvennt í einu, að skapa tiltekinn jöfnuð milli landshluta og um leið jöfnun milli stjórnmálaflokka. Niðurstaðan varð sú að setja upp afar flókið kosningakerfi sem mörgum hefur fundist erfitt að skilja.
    Kjarni málsins er hins vegar þessi: Það hefur tekist um málið bærileg sátt með þessari skipan kosningalaganna og það hefur í raun verið viðurkennt af forustumönnum stjórnmálaflokkanna í gegnum árin að það sé ekki óeðlilegt að nokkurt ójafnvægi ríki milli landshlutanna af ástæðum sem margoft hafa verið tíundaðar. Þessi skilningur hefur komið fram í máli fjölmargra forustumanna stjórnmálaflokkanna og ég nefni ekki síst í því sambandi Geir Hallgrímsson.