Jöfnun atkvæðisréttar

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:07:00 (1155)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að segja nokkur orð við þessa umræðu. Ég tel ekkert sjálfgefið að það eigi að stefna að því að hver einasti kjósandi í landinu hafi sama rétt. Ég tel að þarna eigi að vera nokkurt misvægi þarna á milli og vil taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni að þeir sem eru á höfuðborgarsvæðinu hafa mestan aðgang að þingmönnum og geta haft langmest áhrif á löggjafarsamkunduna.
    Ég vil einnig benda á það í því sambandi að við höfum lagt mjög mikla áherslu á það t.d. innan EFTA að við höfum þar neitunarvald. Þar erum við ekki inni á því að það fari eftir mannfjölda hver hafi vægi þar. Við teljum okkur eiga að hafa nákvæmlega jafnmikið vægi þar og aðrir. Hjá Sameinuðu þjóðunum hefur hvert þjóðríki líka nákvæmlega jafnmikinn rétt og þar er ekki heldur farið eftir mannfjölda. Ég tel mikilvægt að við lítum ekki á þetta þannig að það þurfi endilega að vera jafnþungt vægi á bak við hvern einasta kjósanda. Þó að sjálfsagt megi líta á og endurskoða þá tel ég að það þurfi að koma margt þarna inn í ef sú endurskoðun á að fara fram.