Jöfnun atkvæðisréttar

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:10:00 (1157)

     Fyrirspyrjandi (Sigríður A. Þórðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka forsrh. svör hans og tek undir þau meginviðhorf sem komu fram í máli hans. Hins vegar legg ég áherslu á að þeirri endurskoðun verði hraðað sem menn hafa boðað að muni eiga sér stað.
    Það er greinilegt að hér er hreyft viðkvæmu máli og mér finnst skjóta svolítið skökku við að á sama tíma og menn hafa í dag verið að ræða um jöfnuð á ýmsum öðrum sviðum megi ekki ræða um jöfnuð á þessu sviði líka. Ég er ekki að tala um, og það sæti raunar síst á mér sem hef alið nánast allan minn aldur úti á landi, að með þessu væri verið að skerða eða rýra möguleika landsbyggðarinnar til þess að hafa áhrif. En hins vegar tel ég að það hljóti að vera eðlilegt í lýðræðisþjóðfélagi að á þinginu sitji þingmenn í samræmi við það hvar menn búa á landinu, þannig að fólk hafi svipaðan rétt til þess að velja sér fulltrúa á löggjafarþingið.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson talaði um að það væri eðlilegt að það ríkti ójafnvægi og hann talaði um það að ( HG: Ég verð nú að fara að bera af mér sakir.) Fyrirgefðu, er ég kannski að tala um Einar Guðfinnsson? Líklega hefur það verið hann. Ég skrifaði ekki við hjá mér nafnið.
    En í framhaldi af þessu, virðulegur forseti, vil ég vekja athygli á því að við búum í lýðræðisþjóðfélagi með langa þinghefð að baki. Lýðræðið er fólgið í því að meiri hluti skuli ráða. Það hlýtur m.a. að felast í því að allir menn séu jafngildir, annars ríkja ekki leikreglur lýðræðisins. Kosningarrétturinn er einn helgasti réttur hvers manns og þess vegna er nauðsynlegt að á þeim vettvangi séu menn jafnir. Íslendingar eru fámenn þjóð, aðeins um 250 þús. manns. Það er fráleitt að vægi sumra okkar sé fjórfalt á við aðra þegar að kjörborðinu kemur. Eitt sterkasta einkenni okkar Íslendinga er vissan um gildi hvers einstaklings. Það er samofið íslenskri þjóðarsál að jöfnuður skuli ríkja meðal manna enda er íslenskt þjóðfélag eitt jafnasta og stéttlausasta þjóðfélag sem fyrirfinnst á Vesturlöndum. Það skýtur því skökku við þegar gengið er til kosninga að þá skuli þegnum þessa lands mismunað stórlega eftir því hvar á landinu þeir búa.
    Jöfnun atkvæðisréttar er að standa vörð um helgan rétt einstaklinganna, í því efni vil ég engin hornkerling vera.