Jöfnun atkvæðisréttar

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:13:00 (1158)

     Jón Kristjánsson :
     Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessari umræðu, en það var eitt atriði í máli fyrirspyrjanda sem mér fannst ekki að öllu leyti sanngjarnt. Það var þegar hv. 10. þm. Reykn. sagði í lokaorðum sínum að tala megi um jöfnun á öllum öðrum sviðum en þessu. Það hefur nefnilega verið þannig í gegnum árin að hv. þm. hafa, þegar kosningalög hafa verið til umræðu og breytingar á þeim, alltaf talað um jöfnun á þessu sviði og reynt að ganga í átt til jöfnunar. Því finnst mér þessi ummæli ekki sanngjörn í garð okkar sem viljum ekki ganga svo langt. Ég leyni því ekki að ég vil ekki ganga svo

langt að vægið sé algjörlega jafnt, en við höfum ætíð verið að reyna að ná, ef svo má segja, þjóðarsátt á þessu sviði.
    Ég vil geta þess, í sambandi við lýðræðið og bollaleggingar um það, að í því mikla lýðræðisríki Bandaríkjunum, en um það erum við fyrirspyrjandi áreiðanlega sammála að sé mikið lýðræðisríki, hefur höfuðborgin nú engan þingmann.