Greiðsla kostnaðar við pólitíska fundi

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:22:00 (1163)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svörin þó að ég verði fyrir ákveðnum vonbrigðum með að ekki hafi verið gert neitt í málinu, svo langt er síðan ég bar fyrst fram þessa fsp. Hæstv. forsrh. er ekki búinn að vera lengi í ráðuneytinu en ég tel nauðsynlegt að setja einhverjar viðmiðunarreglur. Auðvitað er ekki hægt að setja reglur sem taka til alls, það er aldrei hægt. En það er greinilegt að það þarf að setja ákveðnar viðmiðunarreglur. Hæstv. ráðherra minntist á útgáfumál sem hafa keyrt úr hófi fram eða gerðu það á síðasta vori hjá mörgum ráðherrum. Ég man nú ekki að telja það allt upp hér en það er sjálfsagt öllum kunnugt. Einnig hafa verið farnar ýmsar ferðir á vegum ráðherra. Það var mjög áberandi í tíð síðustu ríkisstjórnar á vegum margra ráðuneyta, þar á meðal man ég eftir að bæði utanrrh. fór margar ferðir og iðnrh. fór líka þó nokkuð margar ferðir og, ef ég man rétt, sjútvrh. á sínum tíma. Þetta er nú bara eftir minni og ætla ég ekkert að tíunda það sérstaklega enda fór ég ekkert sérstaklega ofan í það. Það kom fram að hæstv. utanrrh. hefur farið um landið nýlega á vegum utanrrn. og kallað það kynningarfundi þar sem aðeins komu sjónarmið ráðherrans fram, ekki sjónarmið neinna annarra. Það er því alls ekki hægt að kalla það hlutlausa kynningu sem ég tel hins vegar mjög nauðsynlega.
    Mér finnst mjög nauðsynlegt að kynning á vegum ráðuneyta fari fram á ýmsum málum og finn alls ekki að því og finnst, eins og hæstv. forsrh. kom hér að, allt of lítið af því gert, en það er allt annað mál. En það hefur æ betur komið í ljós núna síðustu daga að það sem hæstv. utanrrh. hefur verið að kynna á þessum fundum er ekki kynning vegna þess að þær upplýsingar sem þar komu fram eru ekki einu sinni réttar. Ég vil minna á það sem kom fram í Ríkissjónvarpinu í gær þar sem talað var um réttindi námsmanna varðandi samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Þar kom fram að réttindi námsmanna eru langt frá því að vera í samræmi við það sem hæstv. utanrrh. hefur kynnt á þessum fundum. Það er því alveg greinilegt að ekki er um hlutlausa kynningu að ræða og þar af leiðandi finnst mér ekki eðlilegt að utanrrn. greiði slíka fundi. Þeir eiga auðvitað að fara fram á vegum flokks hæstv. utanrrh.
    Ég tel nauðsynlegt að settar verði einhverjar viðmiðunarreglur og skora á hæstv. forsrh. að vinna að því að slíkar reglur verði settar.