Greiðsla kostnaðar við pólitíska fundi

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:27:00 (1165)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Vegna þessara tilmæla tveggja hv. þm. mun ég taka upp umræðu um það innan ríkisstjórnar hvort rétt sé að setja einhverjar viðmiðunarreglur um þá þætti sem rætt hefur verið um hér.
    En aðeins vegna tveggja gagnrýnisatriða, annars vegar varðandi það að einstakir ráðherrar hafi auglýst viðtalstíma, reyndar tók hv. 4. þm. Austurl. það fram og fannst það einkum ámælisvert í sínu eigin kjördæmi, ef ég skildi það rétt. Ég hef ekki síst tekið eftir því að ráðherrar hafa verið að auglýsa viðtalstíma í hinum ýmsu kjördæmum, ekki sínum eigin kjördæmum endilega. Ég tel, og tek undir með hæstv. umhvrh., það vera mjög góða þjónustu að gefa mönnum tækifæri á að ná tali af ráðherrum um hin ýmsu efni út um landið og ætti að vera í þágu íbúa landsbyggðarinnar, mundi ég halda. (Gripið fram í.) Ég tók eftir því til að mynda að iðnrh. hefur haldið slík viðtöl í öðrum kjördæmum og hafa mælst vel fyrir, mér er kunnugt um það. Þetta vildi ég taka fram alveg sérstaklega.
    Varðandi utanrrh. og fundi hans, þá hygg ég að það hafi verið alveg gríðarleg þörf á því í framhaldi af niðurstöðum um Evrópskt efnahagssvæði að utanrrh. kynnti þau mál ítarlega og það gerði hann á fjölmörgum fundum. Sjálfsagt geta menn deilt um það eins og gengur hvort sjónarmiðum andstæðinga samningsins hafi verið til skila haldið á slíkum fundum og kannski ekki hægt að gera ráð fyrir að það sé gert. En ég sé það ekki fyrir mér að það sé í þágu kynningar að efna af hálfu ráðuneytanna til pólitískra kappræðufunda um mál. Ég hef nú stundum tekið þátt í kappræðufundum af því tagi og oftast nær er upplýsingagildi slíkra funda heldur lítið.