Aðstöðugjald

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:29:00 (1166)

     Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason) :
     Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 126 fsp. til hæstv. félmrh. um aðstöðugjald og spyr: ,,Er þess að vænta að félmrh. leggi fram stjórnarfrv. um niðurfellingu aðstöðugjalds?``
    Ég hygg að spurningin sé þannig fram sett að hún þarfnist ekki langrar útskýringar en ég get þó gert þá grein fyrir henni að mér virðist að við verðum að hefja það starf að jafna starfsgrundvöll atvinnugreina. Aðstöðugjaldið er ekki lagt jafnt á innlendar greinar og það er eitt þeirra gjalda sem gerir okkar íslensku fyrirtækjum erfitt um vik í samkeppni við erlenda keppinauta. Samtök nokkurra atvinnugreina hafa vissulega og skilmerkilega bent á þennan aðstöðumun sem er þeim í óhag.