Aðstöðugjald

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:34:00 (1168)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Það var gaman að hlusta á þessa ræðu. Þetta var ræða félmrh. síðustu ríkisstjórnar. Ekki félmrh. í núv. ríkisstjórn. Einfaldlega vegna þess að Sjálfstfl. hefur beitt neitunarvaldi sínu gagnvart þeim till., sem hafa legið á borðinu, í heilt ár að afnema aðstöðugjaldið. Það var ljóst fyrir rúmu ári síðan að það var eindregin krafa frá forustumönnum atvinnulífsins og forustumönnum samtaka launafólks að í tengslum við nýja kjarasamninga yrði fyrir áramót lögfest afnám aðstöðugjaldsins. Það væri liður í að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins og gera atvinnufyrirtækjunum kleift að ganga til nýrra kjarasamninga. Sjálfstfl. beitti í ríkisstjórn undir forustu Davíðs Oddssonar neitunarvaldi og það er ein af ástæðunum fyrir því að kjarasamningar hafa ekki verið gerðir. Núv. félmrh. er ekki öfundsverð af því hlutverki að reyna að knýja fram innan núv. ríkisstjórnar stefnu sem alger samstaða var um innan fráfarandi ríkisstjórnar.