Orkuverð

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:44:00 (1173)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi, 2. þm. Suðurl., spyr hvort ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að Landsvirkjun breyti gjaldskrá sinni meðan mikil ónotuð orka er til staðar þannig að ekki verði ódýrara að nota innflutta orkugjafa en innlenda orku. Þessu vil ég svara þannig að ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu vinna að því áfram í samvinnu við Landsvirkjun og stjórn hennar að finna nýja notendur á sviði orkufreks iðnaðar jafnt innan lands sem utan. En auk þess mun hún stuðla að því eftir því sem er á hennar færi að notendur sem í dag nýta innflutta orkugjafa í verulegum mæli breyti sínum búnaði í það horf að þeir geti notað raforku í staðinn eftir því sem hagkvæmt kann að reynast. Hér eiga að sjálfsögðu viðskiptaleg sjónarmið að ráða. Hv. fyrirspyrjandi vék að því sem eitthvað mun hafa komið fram í fréttum að undanförnu að einstakar rafveitur kunni að nota dísilvélar í vetur til að framleiða raforku á mestu álagstímum. Um það mál vil ég segja að þau áform stafa væntanlega af því að þessar veitur hafa valið sér lágan álagstopp í samningum við Landsvirkjun um síðustu áramót og þar með tekið áhættuna af því að komast í hærri gjaldflokk fyrir umframaflið. Því fer víðs fjarri að dreifiveitur hafi verið knúðar til þess að framleiða orku með þessum hætti. Þær hafa gert um þetta samninga. Síðan kann það að hafa komið í ljós að ódýrara kunni að vera að framleiða umframorkuna með dísilstöðvum en að kaupa hana af Landsvirkjun. Ég tel þarna vera um að ræða mál þar sem aðilarnir verða að gera út um sínar sakir á sama hátt og almennt gerist í viðskiptum.
    Landsvirkjun hefur að undanförnu selt svokallaða ótrygga orku við vægu verði en í því felst að notendur verða að sæta því að fyrirvaralaust rof geti orðið á orkunni þegar forgangsnotendurnir fullnýta orkukerfið. Við þær aðstæður sem nú eru uppi hefur af auðskiljanlegum ástæðum, af því að Blönduvirkjun er mjög vannýtt, aukist þrýstingur frá þeim sem kaupa raforkuna á forgangsverði að færa notkunina yfir á ótrygga orku, væntanlega í trausti þess að ekki komi til þess að hún verði rofin. En auðvitað hljóta allir að skilja tregðu Landsvirkjunar til að samþykkja slíka samninga enda hefði það einungis í för með sér lækkaðar tekjur fyrir fyrirtækið við óbreytta heildarnotkun. Markmið Landsvirkjunar með sölu á ótryggu orkunni er að sjálfsögðu að selja þessum aðilum umframframleiðslu til nota þar sem raforka mundi ella ekki koma til greina sem orkugjafi. Þannig og aðeins þannig getur fyrirtækið fengið aukna sölu og hærri tekjur upp í þann kostnað sem m.a. hlýst af fjármögnun Blönduvirkjunar. Ég er nokkurn veginn viss um að við munum finna ný og aukin not fyrir þessa ótryggu orku á næstu missirum og treysti því að viðskiptasamningar manna á milli á grundvelli markaðslögmálanna muni leysa þann vanda sem fyrirspyrjandi hefur áhyggjur af. Jafnframt munum við halda áfram að reyna að finna nýja kaupendur að forgangsorku við því verði sem gefur okkur ábata sem nægir til að kosta næstu stórframkvæmdir í okkar orkubúskap.