Orkuverð

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:54:00 (1179)

     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
     Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans þó ég verði að segja að ég er ekki að öllu leyti sammála því sem fram kom í þeim. Að sjálfsögðu er ástæðan fyrir því að ég beini þessari fsp. til ríkisstjórnarinnar sú að Landsvirkjun er að hálfu leyti í eigu ríkisins og ríkið á þarna mikilla hagsmuna að gæta fyrir utan það að þjóna sínum skyldum við landsmenn.
    Þegar rafveitur velja sér það magn, sem er áætlað að semja um að kaupa, hljóta þær að miða við að það sé sem hagkvæmast og það hlýtur auðvitað að vera hagkvæmt að hafa hámarkið eitthvað lægra en hæsta topp, sérstaklega þegar búið er að breyta því þannig að aðeins er miðað við einn hæsta topp en ekki fjóra. Við það mark hlýtur þá að vera miðað við það orkuverð sem þarf að greiða fyrir umframorkuna. Eins og ég sagði áðan er kostnaður á rafmagni frá dísilstöð um það bil tvöfalt hærri en það sem þarf að greiða fyrir hið umsamda verð frá Landsvirkjun. En hins vegar er yfirverðið frá Landsvirkjun meira en sextánfalt. Með slíkri verðlagningu getur ekki verið að Landsvirkjun ætlist til að nokkrum detti í hug að kaupa þessa yfirverðsorku og út frá þjóðhagslegu sjónarmiði finnst mér þetta vera alger fjarstæða. Ég vil því hvetja hæstv. iðnrh. til þess að skoða þetta mál betur því að ég tel að þetta sé ekkert einkamál tveggja fyrirtækja. Þetta er mál þjóðarinnar allrar. Hún verður að greiða þessa ónýttu orku í Blöndu. Sá kostnaður leggst á hvort sem hún er notuð eða ekki og því tel ég mikilvægt að við þessar aðstæður verði gerðar einhverjar breytingar á skipulagi sem kannski væri réttlætanlegt ef öðruvísi stæði á.