Orkuverð

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 12:57:00 (1180)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Þær umræður sem hér hafa spunnist um fsp. hv. 2. þm. Suðurl. sýna að fullkomin ástæða er til að líta á fyrirkomulag verðákvörðunar orkunnar í viðskiptum milli Landsvirkjunar og dreifiveitna. Ég tel það fyrirkomulag sem nú er á margan hátt gallað, að þetta skuli gert með einhliða gjaldskrárákvörðun en ekki í nægilega ríkum mæli með samningum. Reyndar leit ég svo á að sú stefna að færa þetta meira yfir í afltaxta og samninga um afltoppa færðu þetta nær viðskiptalegum grundvelli.
    Ég vildi líka benda þingheimi á að það er mjög óhægt um vik að ræða afltaxta og samanburð þeirra þegar breytingar verða, eins og hér voru nefndar af hálfu hv. 3. þm. Vestf. og undir var tekið af hv. 2. þm. sama kjördæmis og reyndar 6. þm. Vestf. einnig, án þess að hafa allar tölur og staðreyndir viðskiptanna fyrir framan sig. Ég bið hv. þm. að spara sér stóru orðin um kúgun og nauðung í þeim samningum sem þarna er verið að ræða og mun að sjálfsögðu huga að því sérstaklega, sem síðast var á minnst, að fiskmjölsverksmiðjurnar fengju þarna krappari kjör en þær hefðu við búist. Það er sjálfsagt mál að líta á það en ég held að leiðin sé ekki að berjast á hinum pólitíska vettvangi með upphrópunum af því tagi sem hér hafa því miður hrotið af vörum manna.
    Vegna þess sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf. um heimildir veitnanna til að nýta

aðra orkugjafa en kaup af Landsvirkjun þegar svo stendur á að þær fara fram úr toppi tel ég að það eigi að vera þeirra ákvörðunarmál. ( ÓÞÞ: Nei.) Það á að vera það. Þarna komum við náttúrlega að því að virkjanir á Íslandi eiga að virkja orku í vatnsföllum og iðrum jarðar en ekki gjaldskrár viðskiptaaðila sinna, fyrst og fremst. Og þess vegna þarf að huga mjög vandlega að þessu.
    En svona undir lok þessarar umræðu vil ég líka benda á að það er sannarlega rétt sem er undirrót fsp. hv. 2. þm. Suðurl., eins og ég skil hana, þ.e. að við þessar aðstæður, þar sem við höfum nokkra umframorku um sinn, er ástæða til að leita leiða til að koma henni í verð og það kann að vera að það kalli á aðrar ákvarðanir en áður voru í gildi. En það getur eingöngu gilt ef um viðbótarnotkun er að ræða. Það getur ekki verið skynsamlegt við þessar aðstæður, og sennilega er það aldrei óskynsamlegra en einmitt við þær, að færa þá orku sem áður var seld við því verði, sem þörf var fyrir, yfir í eitthvert miklu lægra verð. Það sér náttúrlega hver maður að hafi Landsvirkjun einhvern tíma haft efni á því hefur hún það alls ekki við þær aðstæður sem nú ríkja. Þetta getur hver maður skilið og í því felst hugsanavilla að halda að kringumstæður Landsvirkjunar séu nú betri til þess að slá af allri orkunni þegar ekki hefur tekist að gera þann stóra orkusölusamning sem menn bundu miklar vonir við og binda enn.