Lækkun húshitunarkostnaðar

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 13:10:00 (1183)

     Fyrirspyrjandi (Sigurður Þórólfsson) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. hans svör. Ég vil aðeins staðfesta að í þessum umræðum held ég að það hafi komið ótvírætt fram að orkuverð til húshitunar hefur ekki lækkað eins og að var stefnt með þessum tillögum. Það er kannski fyrst og fremst vegna þess að á þessu ári hefur raforka hækkað þrívegis, eins og hæstv. ráðherra gat um í umræðum áður, og annað hitt að niðurgreiðslan er óbreytt. 1. júní hækkar hún í 126 aura, þ.e. 106 aura frá ríkissjóði og 20 aura frá Landsvirkjun. Sú niðurgreiðsla hefur haldist óbreytt í krónutölu og það gerir það að verkum að raforkuverð er orðið svipað núna og það var áður en til þessarar lækkunar kom. Ég hef fengið mína raforkureikninga líka, eins og aðrir, og ég þekki það mætavel af því hvernig raforkuverð er á landsbyggðinni. Ég held það sé nefnilega alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði fyrr í umræðunum að niðurgreiðslan er vissulega ekki uppurin, hún stendur föst. Hún stendur nefnilega föst og þess vegna er það að raforkuverð til húshitunar er á svipuðu stigi og það var áður en þessar aðgerðir komu til framkvæmda í vor. Það er kannski fyrst og fremst það sem vakti fyrir mér með minni fyrirspurn að láta það koma fram að þrátt fyrir góðan vilja og góðar tillögur sem fram hafa komið í þessum málum hefur ekki náðst sá árangur sem að var stefnt. Hæstv. ráðherra sagði hér áðan í svari sínu að stefnt væri að sama niðurgreiðslustigi, ef ég tók rétt eftir, á næsta ári. Á ég þá að taka það þannig að miðað sé við að það sé sama krónutala á kwst. og er núna?