Hópferðir erlendra aðila

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 13:18:00 (1187)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Í samræmi við þá þál. sem hv. fyrirspyrjandi lýsti áðan skipaði samgrn. hinn 23. ágúst 1990 fimm manna nefnd til að endurskoða reglugerðina og skyldi nefndin stefna að því að endurskoðuð reglugerð öðlaðist gildi 1. jan. 1991. Nefndin samdi drög að reglugerð um skipulagðar hópferðir um Ísland í atvinnuskyni og sendi með bréfi, dags. 18. des. 1990, reglugerðardrögin til umsagnar ýmissa aðila í ferðaþjónustu og gaf þeim frest til 8. jan. 1991 til að svara. Skemmst er frá því er að segja að einstök ákvæði draganna fengu misjafnar undirtektir og niðurstaðan varð raunar sú að ýmis ákvæði í þeim ættu sér ekki stoð í lögum. Við svo búið var nefndarstörfunum hætt og nefndin formlega lögð niður 30. maí sl.
    Hér er einkum vitnað til 35. gr. laga, nr. 79/1985, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ráðherra er heimilt að ákveða að þeir aðilar, sem skipuleggja hópferðir um Ísland, skuli, samkvæmt nánari reglum sem settar yrðu þar að lútandi, kaupa tryggingu hjá viðurkenndu tryggingarfélagi vegna kostnaðar sem hljótast kynni af leit eða björgun farþega sem ferðast á þeirra vegum.
    Enn fremur er ráðherra heimilt að ákveða að sömu aðilar skuli hafa í nánar tilteknum ferðum leiðsögumenn sem hlotið hafa sérstaka þjálfun til þess starfa samkvæmt frekari ákvæðum í reglugerð.``
    Eins og ég vænti að hv. alþm. sé kunnugt eru lög um skipulag ferðamála nú í gagngerðri endurskoðun og ég vonast til að henni geti lokið nægilega snemma til þess að hægt sé að leggja málið fyrir Alþingi nú í vetur. Fsp. hv. þm. lýtur að einum þætti þessarar endurskoðunar og gleggri svör liggja ekki fyrir á þessari stundu.