Vegar- og brúargerð yfir Gilsfjörð

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 13:30:00 (1192)

     Fyrirspyrjandi (Sigurður Þórólfsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vil aðeins þakka hæstv. samgrh. hans svör og ég legg áherslu á að við þessa áætlun verði staðið þannig að þessar framkvæmdir geti hafist á þeim tíma sem ætlað var, þ.e. 1993, í framhaldi af því að Dýrafjarðarbrú er lokið. Það hefur verið reiknað með því að það yrði farið í brúargerð yfir Gilsfjörð þegar framkvæmdum við Dýrafjarðarbrúna lyki og ég tel það mjög hagkvæmt, ekki síst nú, á þeim tímum þegar samdráttur virðist vera í verkefnum fyrir verktaka þannig að reikna má með því að hægt væri að ná kostnaði allverulega niður frá því sem ætlað er.